Sjúkraliðafélag Íslands hefur útnefnt Hildi Elísabetu Pétursdóttur fyrirmyndarstjórnanda ársins 2018. Hildur er deildarstjóri hjúkrunarheimilanna Eyrar á Ísafirði og Bergs í Bolungarvík og hefur verið frá opnun beggja heimila.

 

Þetta er í fimmta skipti sem Sjúkraliðafélagið stendur fyrir útnefningunni, sem hefur það að markmiði að styðja við og draga fram það sem vel er gert í mannauðsstjórnun. Verðlaunin voru afhent í sal Eyrar þriðjudaginn 4. desember.

 

Við afhendingu verðlaunanna sagði Sandra B. Franks formaður Sjúkraliðafélags Íslands að í umsögn um Hildi sé bent meðal annars á framúrskarandi eiginleika hennar í mannlegum samskiptum og hversu vel hún nýtir faglega hæfni og færni sjúkraliða í störfum sínum.

 

Gylfi Ólafsson forstjóri sagði við þetta tilefni að Hildur væri vel að verðlaununum komin, hún væri öflugur stjórnandi sem hefði lánast að gera öfluga liðsheild meðal starfsfólks.

 

Hildur sagði við móttöku verðlaunanna að starfsfólkið skipti öllu máli. Svona stofnanir megi líta á sem keðju, þar sem hver hlekkur er mikilvægur. Eyri og Berg hafi alltaf verið heppin með starfsfólk og það hafi gert starf hennar auðvelt.

 

Hildur Elísabet hefur unnið hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða eða fyrirrennurum stofnunarinnar með litlum hléum síðan 1997 þegar hún útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands. Hún lauk diplómanámi í hjúkrun hjarta- og lungnasjúklinga árið 2006 og meistaragráðu í hjúkrunarstjórnun árið 2011.


Hildur og Sandra, formaður SLFÍ


Sjúkraliðar við athöfnina með Gylfa Ólafssyni, Hildi og Söndru B. Franks

Höf.:HH