Viðbót 28. febrúar: Einangrun hefur verið felld niður þar sem sýni sýndi að ekki var um Covid-19 veiru að ræða. 

Fimm einstaklingar eru í sóttkví og einn í einangrun vegna mögulegrar Covid-19 sýkingar. Allir eru á Ísafirði. Einni einangrun til viðbótar var aflétt í dag þar sem sýni var neikvætt. Niðurstaðna frá einstaklingi í einangrun er að vænta seinna í dag, fimmtudag. 

Sóttkví er varúðarráðstöfun fyrir einkennalausa einstaklinga sem hafa verið á ferðalögum á skilgreindum áhættusvæðum. Gripið er til einangrunar sem varúðarráðstöfunar ef einhver einkenni eru fyrir hendi sem mögulega geta verið Covid-19.

Ákvörðun um sóttkví og einangrun er tekin af umdæmislækni sóttvarna hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, með hliðsjón af leiðbeiningum frá sóttvarnalækni. Þetta eru fyrstu ráðstafanirnar sem gerðar eru í umdæminu.

Einkenni sýkingarinnar líkjast helst flensu; hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir og þreyta. Ef einstaklingar finna fyrir veikindum er þeim bent á að hringja í síma 1700 (fyrir erlend símanúmer +354 544-4113) og fá þar nánari upplýsingar um hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið. Veikir einstaklingar eru sérstaklega beðnir um að mæta ekki á bráðamóttöku sjúkrahúsa eða á heilsugæslustöðvar nema að fengnum ráðleggingum í síma.

Höf.:GÓ