Með tilkomu Dýrafjarðarganga má segja að sameiningu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða sé að mörgu leyti lokið, sjö árum eftir að stofnunin rann í eitt á pappírunum.

Stytting um 300 kílómetra

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða varð til í núverandi mynd 2014 þegar Heilbrigðisstofnunin á Patreksfirði rann saman við þáverandi Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Var það síðasti liðurinn í sameiningaferli sem hófst nokkrum áratugum fyrr með sameiningu læknishéraða, öldrunarheimila og annarrar þjónustu í stærri og burðugri einingar.

Jafnan fylgdu sameiningar samgöngubótum. Bæði gerðist það þegar Heilbrigðisstofnun Ísafjarðarbæjar varð til upp úr opnun Vestfjarðaganga og þegar heilbrigðisstofnanir Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkur runnu saman um það leyti sem Bolungarvíkurgöng opnuðu.

Þetta átti hinsvegar ekki við um sameininguna 2014. Vegalengdin milli sjúkrahúsanna á Ísafirði og Patreksfirði var um 170 kílómetrar á sumrin, þar af að talsverðu leyti á malarvegum. Á vetrum var vegalengdin hinsvegar rúmir 440 kílómetrar, meðal annars yfir fjölmarga fjallvegi, þegar keyra þurfti í gegnum Hólmavík þar sem vegirnir yfir Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar lokuðust snemma vetrar.

Þegar Dýrafjarðargöng voru opnuð í lok október styttist vegalengdin um tæpa þá 30 kílómetra sem tafsamast var að aka. Nú er vegalengdin um 140 kílómetrar. Í haust tilkynnti Vegagerðin að vetrarþjónusta yrði á Dynjandisheiði alla virka daga.  

Stór hluti yfirstjórnar og stoðþjónustu stofnunarinnar hefur frá sameiningu verið á Ísafirði. Þá er hægt að veita ýmsa þjónustu á Ísafirði sem ekki er nægur íbúafjöldi til að halda úti á Patreksfirði og nærsveitum. Þetta á til dæmis við um þjónustu ljósmæðra og rekstur rannsóknastofu.

Suðurfirðingar finna muninn

Þó ljóst hafi verið frá upphafi að einkum yrði það í yfirstjórn sem einhver samrekstur næðist, hefur ýmislegt verið gert á síðustu árum og misserum til að samþætta starfsemina. Þannig hafa verið gerðar fjölþættar breytingar á skipuriti, m.a. með setu hjúkrunarstjóra á Patreksfirði í framkvæmdastjórn og stofnun rekstrarstjórnar á starfsstöðinni á Patreksfirði. Einnig hefur innleiðing á Workplace tengt stofnunina saman, og fjarfundir eru notaðir innanhúss í meira mæli — og það áður en heimsfaraldurinn stórjók notkun fjarfundabúnaðar. Auk þess hefur starfsfólk talsvert farið á milli í afleysingum. En rafræn samskipti leysa ekki allt, sérstaklega ekki í heilbrigðisþjónustu.

Með vegabótunum höfum við komið á föstum vikulegum ferðum frá Ísafirði til Patreksfjarðar og til baka aftur. Með því verður samþætting stofnunarinnar talsvert auðveldari:

  • Þjónusta ljósmæðra á sunnanverðu svæðinu er nú orðin mikið betri með hálfsmánaðarlegum ferðum til Patreksfjarðar.
  • Sendar eru blóðprufur frá Patreksfirði til greiningar á Ísafirði.
  • Starfsfólk geðteymisins á Ísafirði sinnir viðtölum á Patreksfirði.
  • Heilbrigðisgagnafræðingar hafa sinnt löngu tímabærum verkefnum við faglega geymslu mikilvægra skjala
  • Geislafræðingar hafa fylgt nýja röntgentækinu sem sett var upp nýverið á Patreksfirði og hjálpað til við notkun þess.
  • Starfsfólk kynnist innbyrðis og lærir hvert af öðru.

Þá eru sjúkraflutningar hafnir milli sjúkrahúsanna tveggja þar sem sjúkrabílar frá Ísafirði og Patreksfirði hittast á miðri leið við flutning á sjúklingum. Einnig geta íbúar á sunnanverðu svæðinu nú leitað til Ísafjarðar til að sækja þjónustu sem ekki er í boði á Patreksfirði, til dæmis tannlækningar.

Spennandi tækifæri

Tíminn og reynslan verður að leiða í ljós hvernig þetta þróast svo allt saman. Heimsfaraldur kórónuveirunnar setur því takmörk hvernig fólk hittist í hópum og ferðast milli heilbrigðisstofnana og það verður gaman að sjá hvernig mál þróast eftir að bólusetningu lýkur.

Ferðalagið tekur nú um tvo tíma hvora leið — enginn skottúr svo sem — en hægt er að keyra fram og til baka og sinna verkefnum innan dagsins án þess að þurfa að gista með tilheyrandi raski á jafnvægi vinnu og einkalífs.

Þessi vetur hefur verið snjóléttur og mér telst til að einungis ein ferð hafi fallið niður, á degi þar sem það var hvort eð er ekkert ferðaveður. Nú standa yfir framkvæmdir á veginum yfir Dynjandisheiði sem enn bæta aðstæður og munu hratt auka áreiðanleika vegarins og Vegagerðin boðar að endurgerð 14 km kafla verði boðinn út fljótlega.

Það er því fullt tilefni til að líta framtíðina björtum augum og hlakka til áframhaldandi eflingar á samstarfi innan fjórðungsins.

Gylfi Ólafsson forstjóri

Höf.:GÓ