Íbúar á hjúkrunarheimilum og framlínustarfsmenn á Vestfjörðum verða bólusettir í dag, um 70 manns.
Fyrsta bólusetningin fór fram á Bergi í Bolungarvík kl. 10 í morgun, 30. desember. Ester Hallgrímsdóttir íbúi á Bergi fékk fyrsta skammtinn. Í apríl slapp hún við smit þrátt fyrir að hafa verið umkringd smituðum íbúum þegar hópsýkingin kom þar upp.
Fjóla Sigríður Bjarnadóttir, deildarstjóri hjúkrunarheimilanna Eyrar, Bergs og Tjarnar gaf henni sprautuna. Fjóla hefur verið hjúkrunarfræðingur á Bergi um árabil og stýrði aðgerðum þar í apríl. Nú um áramótin lætur Fjóla af störfum hjá stofnuninni og flytur til Garðabæjar.
„Þetta er táknrænn og tilfinningaþrunginn dagur fyrir okkur öll,“ segir Hildur Elísabet Pétursdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar.
Aðrir íbúar á hjúkrunarheimilum stofnunarinnar á Tjörn á Þingeyri, Eyri á Ísafirði verða bólusettir í dag, sem og læknar og hjúkrunarfræðingar í framlínu heilbrigðisþjónustunnar. Bóluefni er einnig lent á flugvellinum á Bíldudal og verða íbúar í hjúkrunarrýmum á Patreksfirði og framlínustarfsmenn bólusettir í dag. Alls verða því 70 skammtar gefnir.
Á myndunum eru:
Ester Hallgrímsdóttir og Fjóla Sigríður Bjarnadóttir við bólusetningu á Bergi.
Þórunn Berg og Telma Björk Sörensen hjúkrunarfræðingar blanda bóluefnið.
Jóhanna Hafsteinsdóttir lyfjatæknir tekur á móti bóluefninu á Ísafirði.
Gerður Rán Freysdóttir hjúkrunarstjóri á Patreksfirði tekur á móti bóluefni á Bíldudalsflugvelli.
Höf.:GÓ