Læknaráð Heilsugæslustöðvar og Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði, mótmælir harðlega tillögum til niðurskurðar á framlögum til heilbrigðismála, sem birtast í nýútkomnu frumvarpi til fjárlaga. Einkum og sér í lagi er mótmælt 42,6% niðurskurði á framlögum til sjúkrasviðs Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði. Slíkur niðurskurður myndi setja starfsemi Fjórðungssjúkrahússins í uppnám og skapa mikið óöryggi í allri heilbrigðisþjónustu svæðisins

Heilsugæslan á norðanverðum vestfjörðum verður ekki rekin öðru vísi en á bak við hana sé öflugt sjúkrahús, sem getur veitt skilvirka bráðameðferð allra slysa- og sjúkdómstilfella.

Það er mat læknaráðs, að heilsugæslusjúkrahús, eins og nú er ráðgert, gæti aldrei tekið við því öfluga starfi, sem sinnt hefur verið á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði fram til þessa. Gera má ráð fyrir að stóran hluta þeirra sjúklinga sem nú fá lausn sinna mála á Fjórðungssjúkrahúsinu, þyrfti að flytja með ærnum tilkostnaði frá slíku heilsugæslusjúkrahúsi með hraði á hátæknisjúkrahús, þar sem hver legudagur er væntanlega umtalsvert dýrari. Ekki verður hjá vikið að minna á beint óhagræði og óþægindi sjúklinga, sem af slíkum ferðum hlytist.

Læknaráð bendir á landafræði og veðurfarslegar aðstæður á Vestfjörðum sem eru flestum augljósar og leiða til ótryggra samgangna. Tillögur þessar ógna öryggi og velferð íbúa svæðisins.

Læknaráð skorar á fjárlaganefnd að draga til baka þessa tillögu um 42,6% niðurskurð á sjúkrasviði, en leita eftir við stjórnendur stofnunarinnar um samvinnu til sparnaðar og hagræðingar sem unnin yrði eftir hugmyndum heimamanna, en á þann hátt þó að skerðing heilbrigðisþjónustu ógni ekki öryggi svæðisins.

Læknaráð,

Finnbogi O. Karlsson
Helgi Kr. Sigmundsson
Úlfur Gunnarsson
Þorsteinn Jóhannesson
Þórður Guðmundsson
Örn E. Ingason


Höf.:ÞÓ