Gestur Ívar Elíasson hefur verið ráðinn yfirmatráður HVEST frá og með 1. ágúst n.k. Hann tekur við af Birgi Jónssyni, sem hefur stýrt eldhúsum HVEST hvellum rómi og af myndarbrag í 21 ár. Gestur Ívar hefur verið hægri hönd og staðgengill Birgis s.l. 16 ár. Hann er kjötiðnaðarmaður og matartæknir að mennt, með langa og víðtæka reynslu við fagmeðhöndlun matvæla, matreiðslu og framreiðslu matar.

 

Um leið og Gestur er boðinn velkominn í nýtt starf, þá er Birgi þakkað fyrir afskaplega skemmtilegt og fræðandi samstarf í 2 áratugi. Hans verður sárt saknað þegar hann hættir síðsumars.

 

Þó Gestur eigi ekki eftir að galdra fram góðan mat á jafn hljómmikinn og ærslafullan hátt og Birgir, þá gefur hann Birgi ekkert eftir í eldamennskunni með sínu rólynda og elskulega fasi.


Gestur Ívar Elíasson

Höf.:HH