Hefur þú fengið boð í skoðun?
Síðastliðin ár hafa því miður sífellt færri konur bókað sér tíma í leghálskrabbameinsleit og hér á Vestfjörðum er nú svo komið að aðeins um 20% kvenna sem fá boð mæta í skimunina. Mætingin er sérstaklega slæm meðal ungra kvenna sem þó er sá hópur sem er í mestri áhættu.
Auðvelt er að bóka tíma á heilsugæslunni og skoðun kostar aðeins 500 kr.
Á Íslandi greinast um 19 á hverju ári með leghálskrabbamein og um 1.700 með frumubreytingar sem geta þróast í leghálskrabbamein sé ekkert að gert. Algeng einkenni leghálskrabbameins eru m.a. óútskýrðar blæðingar, blæðingar eftir samfarir, breytt útferð og verkir í neðarlega í kviðarholi. Því fyrr sem krabbamein í leghálsi er greint, því betri eru batahorfur. Regluleg skimun fyrir leghálskrabbameini getur lækkað dánartíðni af völdum sjúkdómsins um 80–90%.
Konur á aldrinum 23–29 ára fá boð í skimun fyrir leghálskrabbameini á 3 ára fresti og konur frá 30–64 ára á fimm ára fresti. Boð berast frá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana en skimun er gerð á heilsugæslustöðvum um land allt.
Skimun er ætluð einkennalausum konum og aðeins þær konur sem hafa fengið boð í skoðun geta bókað tíma. Öðrum konum er bent á leita læknis hafi þær áhyggjur af heilsufari sínu eða eru með einkenni.
Ráðlagt er að fara reglulega í skimun þó að þú hafir fengið HPV bólusetningu. HPV bólusetning minnkar líkur á leghálskrabbameini en getur aldrei komið að fullu í veg fyrir það.
Skimun á Ísafirði
Skimunin á heilsugæslunni á Ísafirði er framkvæmd af Erlu Rún Sigurjónsdóttur ljósmóður og er að jafnaði í boði tvo daga í hverjum mánuði. Hægt er að bóka tíma á „Mínum síðum“ á Heilsuvera.is eða hafa samband við heilsugæsluna í síma 450-4500.
Skimun á Patreksfirði
Næst verður boðið upp á leghálskrabbameinsleit á Patreksfirði þriðjudaginn 8. mars. Erla Rún Sigurjónsdóttir ljósmóðir sér um skoðanir. Verði færðin slæm getur verið að bókanir frestist um einn eða tvo daga. Hægt er að bóka tíma á „Mínum síðum“ á Heilsuvera.is eða hafa samband við heilsugæsluna í síma 450-4500.
Ef þessi dagur hentar ekki má geta þess að Erla Rún ljósmóðir fer núna að jafnaði annan hvern þriðjudag til Patreksfjarðar og sinnir mæðravernd. Þá daga ganga þungaðar konur fyrir með bókanir, en oft að hægt að koma að einhverjum konum í krabbameinsleit einnig. Þá tíma er þó ekki hægt að bóka með löngum fyrirvara. Hægt er að setja sig á biðlista með því að hringja á heilsugæslustöðina á Patreksfirði.