Rafkisur eru nú komnar á allar hjúkrunardeildir Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, á Patreksfirði, Þingeyri, Bolungarvík og Ísafirði. Kisurnar mala, mjálma og hreyfa sig og svara góðlátlega þegar þeim er klappað. Þær fara ekki úr hárum og þurfa ekkert að borða, en fá nýjar rafhlöður þegar þær verða þreyttar. Kisurnar voru keyptar með gjafafé sem starfsemin á Eyri hefur til umráða.
Sérstaklega eru kisurnar velkomnar í kjöltum heilabilaðra íbúa, þar sem þær eru einstaklega notalegar og róandi. „Rafkisurnar vekja gríðarlega lukku og þær fá mikið og gott atlæti frá heimilismönnum,“ segir Auður Helga Ólafsdóttir deildarstjóri á Eyri og Bergi.
Kisan á Patreksfirði heitir Keli, á Bergi í Bolungarvík er fressið Bergur en enn eru í gangi hugmyndasamkeppni um nöfnin á hinum.