Lífið er aftur að komast í samt lag á Patreksfirði og nærsveitum eftir hópsmitið sem kom upp í síðustu viku. Síðustu daga hafa sýnatökur í lok sóttkvíar sýnt nokkur ný smit, sem sýnir að þar var sóttkví nauðsynleg til að koma í veg fyrir frekari dreifingu.
Samfélagið brást einstaklega vel við. Við viljum byrja á að hrósa starfsfólkinu okkar sem var ósérhlífið í þeim verkefnum sem komu upp. Félagsheimilið var opnað fyrir okkur á augabragði. Skólastjórnendur, sveitarstjórnarfólk, vettvangsstjórn, Rauði krossinn og margir fleiri voru snöggir að taka skynsamlegar ákvarðanir. Íbúar mættu vel í sýnatöku. Sérstakar þakkir fá einnig fyrirtækin á svæðinu, meðal annars Fjölval, Oddi og Arnarlax, sem var vandi á höndum að bjarga verðmætum en slá ekki af sóttvarnakröfum. Ekkert af þessu var sjálfsagt.
Þá má ekki gleyma að Vestfirðingar hafa verið duglegir að koma í bólusetningu, og nú þegar örvunarbólusetningin er í gangi er hópsmitið áminning um að mæta þegar boðið kemur. Sýnatökurnar eru ekki lengur í félagsheimilinu og eru aftur komnar upp á sjúkrahús. Heimsóknir eru aftur leyfðar á legudeildina á Patreksfirði. Áfram er grímuskylda og heimsóknargestir beðnir um að koma ekki ef finna minnstu einkenni sem gætu verið vegna Covid19 sýkingar.
Covid-stjórn Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða