Markmið ung- og smábarnaverndar er að efla heilsu, vellíðan og þroska ungra barna með reglulegum heilsufarsskoðunum ásamt stuðningi og heilbrigðisfræðslu til fjölskyldna þeirra. Áhersla er lögð á stuðning við fjölskylduna. Fylgst er með þroska barna frá fæðingu til skólaaldurs.
Hjúkrunarfræðingar og læknar á heilsugæslustöðvum sjá um ung- og smábarnavernd. Unnið er samkvæmt leiðbeiningum Embættis landlæknis um ung- og smábarnavernd.
Heimavitjanir og heimsóknir á heilsugæslustöð
Ung- og smábarnavernd stendur öllum foreldrum til boða þeim að kostnaðarlausu. Foreldrum nýfæddra barna er boðið upp á heimavitjanir fyrstu vikurnar og koma síðan í kjölfarið á heilsugæslustöðina með barnið í skoðanir. Í heimavitjunum skoðar hjúkrunarfræðingur barnið, metur þroska þess, þyngd og höfuðummál. Foreldrar fá ráðgjöf og fræðslu varðandi umönnun barnsins og eigin líðan.
Þegar barnið er sex vikna gamalt er læknisskoðun á heilsugæslustöð og við þriggja mánaða aldur hefjast bólusetningar. Hefðbundnar bólusetningar eru framkvæmdar samkvæmt fyrirmælum sóttvarnalæknis hjá Embætti landlæknis.
Foreldrum er velkomið að hafa samband við hjúkrunarfræðinga í ung- og smábarnavernd umfram þessar skipulögðu skoðanir.
Skoðanir og bólusetningar
Hér má sjá yfirlit yfir skoðanir og bólusetningar í ung- og smábarnavernd eftir mismunandi aldri:
Aldur | Hver skoðar | Hvað er gert |
<6 vikna | Hjúkrunarfræðingur | Heimavitjanir. |
6 vikna | Hjúkrunarfræðingur og læknir | Skoðun. |
9 vikna | Hjúkrunarfræðingur | Heimavitjun eða skoðun á heilsugæslustöð. |
3 mánaða | Hjúkrunarfræðingur og læknir | Skoðun og bólusetning gegn kíghósta, barnaveiki, stífkrampa, haemofilus influenzae sjúkdómi gerð b (Hib) og mænusótt í einni sprautu, pneumókokkum í annarri sprautu. |
5 mánaða | Hjúkrunarfræðingur | Skoðun og bólusetning gegn kíghósta, barnaveiki, stífkrampa, haemofilus influenzae sjúkdómi gerð b (Hib) og mænusótt í einni sprautu, pneumókokkum í annarri sprautu. |
6 mánaða | Hjúkrunarfræðingur | Skoðun og bólusetning gegn meningókokkum C. |
8 mánaða | Hjúkrunarfræðingur | Skoðun og bólusetning gegn meningókokkum C. |
10 mánaða | Hjúkrunarfræðingur og læknir | Skoðun. |
12 mánaða | Hjúkrunarfræðingur | Skoðun og bólusetning gegn kíghósta, barnaveiki, stífkrampa, haemofilus influenzae sjúkdómi gerð b (Hib) og mænusótt í einni sprautu, pneumókokkum í annarri sprautu. PEDS Mat foreldra á þroska barna. |
18 mánaða | Hjúkrunarfræðingur og læknir | Skoðun og bólusetning gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum í einni sprautu. PEDS Mat foreldra á þroska barna. |
2 1/2 árs | Hjúkrunarfræðingur | Skoðun, PEDS Mat foreldra á þroska barna, Brigance þroskaskimun. |
4 ára | Hjúkrunarfræðingur | Skoðun, sjónpróf, PEDS Mat foreldra á þroska barna, Brigance þroskaskimun. Bólusetning gegn kíghósta, barnaveiki og stífkrampa í einni sprautu. |
Brjóstagjöf
Brjóstamjólk er besta næring sem völ er á fyrir ungbarnið. Mælt er með því að barn fái eingöngu brjóstamjólk fyrstu 4-6 mánuðina og að brjóstamjólk sé hluti fæðunnar alt fyrsta árið eða lengur.
Frekari upplýsingar um brjóstagjöf má finna á ljósmóðir.is og landlæknir.is.
2 1/2 árs skoðun barna
Við viljum minna foreldra á mikilvægi þess að mæta með börnin sín í 2 1/2 árs skoðun. Flest börn eiga skráðan tíma rúmlega 2 1/2 árs. Í 2 1/2 árs skoðun er lagt mat á þroska barnsins, hæð og þyngd barnsins mæld.
Barnið kemur í fylgd með foreldri/forráðamanni í skoðunina. Reynt er að gera viðtalstíma áhugaverðann og auðveldann fyrir barnið. Gera má ráð fyrir að skoðunin taki allt að 45 mín.
Við viljum benda foreldrum að taka ekki systkini með í skoðunina þar sem það getur haft truflandi áhrif á barnið.
4 ára skoðun barna
Í 4 ára skoðun barna er lagt mat á þroska barnsins, hæð og þyngd barnsins mæld og barnið sjónprófað. Á þessu aldursskeiði er barnið einnig bólusett gegn barnaveiki, stífkrampa og kighósta í einni sprautu.
Barnið kemur í fylgd með foreldri/forráðamanni í skoðunina. Reynt er að gera þennan viðtalstíma áhugaverðann og auðveldann fyrir barnið. Gera má ráð fyrir að skoðunin taki allt að 40 mínútur.
Við viljum benda foreldrum á að taka ekki systkini með í skoðunina þar sem það getur haft truflandi áhrif á barnið.
Uppfært 14. desember 2021 (Björn Snorri)