Markmið

Markmið heimahjúkrunar Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða er að gera einstaklingi kleift að búa áfram heima eins lengi og það er unnt, miðað við heilsufar og félagslegar aðstæður, í náinni samvinnu við einstaklinginn sjálfan og aðstandendur hans.

Svæðisskipting

Heimahjúkrun er veitt á tveimur svæðum:

  • Norðursvæði: Ísafjarðarbær, Bolungarvík og Súðavík
  • Suðursvæði: Vesturbyggð og Tálknafjörður

Heimahjúkrun á norðursvæði er veitt frá sérstakri heimahjúkrunardeild sem er með aðsetur á sjúkrahúsinu á Ísafirði. Einnig er heimahjúkrun veitt út frá heilsumiðstöðinni Tjörn á Þingeyri.

Á suðursvæði er heimahjúkrun veitt út frá sjúkrahúsinu og heilsugæslunni.

Hvernig er sótt um heimahjúkrun?

Best er að ráðfæra sig við lækna heilbrigðisstofnunarinnar. Þeir senda síðan skriflega beiðni til heimahjúkrunardeildar.

Hverjir sjá um heimahjúkrunina?

Heimahjúkrunina annast hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og aðrir starfsmenn, í nánu samstarfi við heilsugæslulækna, sérfræðinga sjúkrahússins og hjúkrunarfræðinga á legudeildum þess.

Hjúkrunarfræðingur frá heimahjúkrunardeildinni heimsækir viðkomandi einstakling og metur þörfina fyrir aðstoð, miðað við heilsufar og félagslegar aðstæður. Að því loknu er gerð áætlun um hjúkrunina í samráði við einstaklinginn og oft aðstandendur hans líka.

Hvaða þjónustu veitir heimahjúkrunardeildin?

Heimahjúkrun er byggð á vitjunum. Umönnun sem þar er veitt er m.a:

  • Almenn aðhlynning
  • Aðstoð við persónulegt hreinlæti
  • Aðstoð við böðun
  • Umsjón með lyfjum
  • Lyfjagjafir (töflur, sprautur, áburður)
  • Sáraskiptingar
  • Mæling blóðþrýstings, blóðsykurs, o.fl.
  • Andlegur stuðningur
  • Eftirlit með almennu heilsufari og umhverfi einstaklings
  • Ráðgjöf og leiðbeiningar um möguleika til bættrar heilsu, s.s. öflun hjálpartækja, hvers er þörf, hvert skuli leita, hollustuhætti,o.s.frv.
  • Önnur hjúkrunarmeðferð og umönnun sem ákveðin er hverju sinni.

Stefnt er að því að gera skjólstæðinga heimahjúkrunar eins sjálfbjarga og óháða og unnt er, miðað við heilsu, líkamsþrek og aðrar aðstæður.

Hvaða þjónustu veitir heimahjúkrun ekki?

  • Vitjanir utan fyrirfram ákveðinna tíma.
  • Fyrirvaralausar vitjanir.
  • Vaka yfir, eða vera hjá einstaklingum yfir lengri tíma.

Hvenær er heimahjúkrun veitt?

Starfsfólk heimahjúkrunar sinnir skjólstæðingum sínum alla daga frá kl. 08:00-15:00 og 18:00-22:00.

Beiðni um þjónustu utan þessara tíma skal koma sérstaklega til deildarstjóra og er hún skoðuð í hverju tilfelli fyrir sig.

Hvað kostar heimahjúkrun?

Heimahjúkrunin sjálf er öllum ókeypis.

Hins vegar þurfa einstaklingar að greiða fyrir læknisvottorð, rannsóknir, ýmsa sérhæfða meðferð og læknaviðtöl, sem heimahjúkrun hlutast oft til um að skjólstæðingar hennar fái.

Yfirmaður heimahjúkrunar

Deildarstjóri heimahjúkrunardeildar á norðursvæði er Heiða Björk Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur, heida.olafsdottir@hvest.is.

Á suðursvæði er hjúkrunarstjóri, Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, tengiliður fyrir heimahjúkrun.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða veitir allar almennar upplýsingar og leiðbeiningar í síma: 450 4500.
Heimahjúkrun á norðursvæði: 450 4537.

Uppfært 22. maí 2024 (JEÚ)

Var síðan gagnleg?