Skimað var fyrir Covid-19 veirunni á norðanverðum Vestfjörðum í liðinni viku í samstarfi Íslenskrar erfðagreiningar og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Af 1713 sýnum eru 6 jákvæð eða tæplega 0,4%. Enn á eftir að greina nokkur sýni til viðbótar en ósennilegt er að þau breyti niðurstöðunni svo nokkru muni. Um þriðjungur íbúa á svæðinu komu til skimunar. 
 
Nokkur fjöldi fólks hefur farið í sóttkví í kjölfar þessara smita. Unnið er að smitrakningu í smitrakningarteymi í Reykjavík og héraði. Því mun ljúka í dag, sunnudag. 
 
„Þessar frábæru niðurstöður sýna að smitrakningin hefur verið að virka. Við höfum fundið fólkið sem er lasið og fólkið með veiruna hefur komið til okkar í sýnatöku. Þessar lágu tölur sýna að heilbrigðisstofnunin og samfélagið allt hefur staðið sig með miklum sóma,“ segir Súsanna Björg Ástvaldsdóttir umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum. 
 
„Síðustu daga hafa Vestfirðingar borið stóran hluta allra smita á landsvísu. Vonandi erum við smám saman að ná tökum á þessu hér við Djúp. Björninn er samt ekki unninn og við þurfum enn að halda fjarlægð, þvo og spritta hendur og fylgja öllu því sem búið er að kenna okkur síðustu vikurnar,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri. 
 
Skimað verður fyrir veirunni á Patreksfirði á fimmtudag 23. apríl og föstudag 24. apríl. Nánari upplýsingar um það eru á vef stofnunarinnar.
 
Upplýsingafundur var haldinn á Facebook með Bolvíkingum á föstudaginn var. Á mánudag kl. 15:00 verður sambærilegur fundur sendur út fyrir íbúa Ísafjarðarbæjar


Frá skimun á Ísafirði


Frá skimun á Ísafirði

Höf.:GÓ