Fimmtudaginn, 30. ágúst tók Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði formlega við nýju ómtæki af Mindray gerð. Kvenfélagið Sunna í Ísafjarðardjúpi hefur haft veg og vanda að fjársöfnun vegna tækisins, en með öllu kostar tækið yfir 10 milljónir króna. Meðal styrktaraðila var Úlfssjóður, sem lagði söfnuninni til rúmar þrjár milljónir króna.

 

Ómtækið er af fullkomnustu gerð, er með nokkra hausa (nema) sem nýtast við að skoða ýmsa hluta líkamans.

 

Álfhildur Jónsdóttir formaður Sunnu afhenti tækið, þakkaði samstarfið við söfnunina og óskaði stofnuninni alls hins besta.

 

Gylfi Ólafsson forstjóri þakkaði fyrir stuðninginn, en frjáls samskot eru mjög mikilvæg stofnuninni og sýna hversu jákvæðan hug íbúar bera til þess starfs sem hér fer fram.

 

Súsanna Ástvaldsdóttir, læknir, kynnti tækið, sagði það fullkomnustu gerðar og til mikilla bóta fyrir störf lækna. Fyrir utan hefðbundna skoðun á ófrískum konum, hjartaómun o.þ.h., þá er ómun sífellt meira notuð í skoðun á líffærum við bráð veikindi og alvarleg slys.

 

Sigríður Jónsdóttir, starfsmaður stofnunarinnar og mikil hvatamanneskja að söfnuninni, sést svo á einni myndinni gæða sér á kaffiveitingum sem bornar voru á borð í matsal stofnunarinnar að Torfnesi.

 

Ljósmyndir: Halldór Sveinbjörnsson.


Höf.:HH