Nýr tannlæknir hefur tekið til starfa á Ísafirði. Christian Lee er 27 ára Englendingur sem útskrifaðist árið 2016 frá Háskólanum í Manchester. Hann hefur síðan starfað í Manchester og Liverpool við almennar tannlækningar.

Christian tekur við af Sigurjóni Guðmundssyni sem hætti fyrir nokkru sökum aldurs. Auglýst var síðasta sumar meðal tannlækna í Evrópu og var Christian einn fjölmargra sem sóttu um stöðuna.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu tækifæri,“ segir Christian. „Ég vildi breyta til, færa mig úr borg í dreifbýli og komast þannig í bæði annað samfélag en einnig annarskonar tannlækningar. Þegar ég sá myndbandið var ég snöggur að senda ferilskrána mína inn. Útivist og veiðar ýmiss konar eru meðal áhugamála minna og ég er heillaður af landi og þjóð.“

„Það er frábært að fá Christian til að taka við stólnum og sjúklingunum mínum,“ segir Sigurjón fráfarandi tannlæknir. „Við erum um margt líkir, ég var líka 27 ára og einhleypur þegar ég kom, með eigur mínar í einni tösku, bókakassa og sæng í poka. Vonandi á honum eftir að vegna jafn vel hér og mér.“

Aðkoma Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða

Tannlæknaþjónusta er á einkamarkaði á Íslandi. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur því ekkert formlegt hlutverk í veitingu á tannlæknaþjónustu. Eina formlega aðkoman er að tannlæknastofur á heilsugæslunum á Ísafirði og Patreksfirði eru leigðar til sjálfstæðra tannlækna. Þó er það svo að forstjóri er í heilbrigðisstefnu til 2030 gerður umdæmisstjóri heilbrigðismála innan síns svæðis. „Við viljum leggja okkar lóð á vogarskálirnar við að viðhalda góðri tannheilsu íbúa. Í þessu samhengi vil ég einnig koma á framfæri að tannlæknastofan á Patreksfirði er laus til útleigu, áhugasamir ættu endilega að setja sig í samband við mig,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri.  

Tveir tannlæknar

Viðar Konráðsson starfar enn í næsta herbergi við hlið Christians sem hefur þegar hafið störf. Sigurjón hefur verið til aðstoðar fyrstu dagana svo að allt gangi vel fyrir sig.

Hægt er að panta tíma í 456 3737.


Frá vinstri Christian Lee nýr tannlæknir, Viðar Konráðsson tannlæknir og Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða

Höf.:GÓ