Hollvinasjóður Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða var stofnaður í kringum áramótin 2022–23. Sjóðurinn kemur í staðinn fyrir nokkra eldri sjóði sem hafa runnið sitt skeið.
Markmið sjóðsins er að efla og styrkja þá starfsemi sem fram fer á eða í tengslum við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og er til þess að bæta heilsu og líf íbúa á svæðinu með beinum eða óbeinum hætti. Skal það gert með öflun og ávöxtun fjár, meðal annars til tækjakaupa, með því að vekja athygli á og hvetja til styrktar starfseminnar á opinberum vettvangi, með því að styðja við menntun og símenntun starfsfólks og íbúa, með samstarfi við önnur góðgerðafélög og öðrum þeim leiðum sem stjórn telur heilbrigðisstofnuninni eða heilsu íbúa umdæmisins til framdráttar.
Stjórn ráðstafar fé sjóðsins, en ef gefendur hafa sérstaka hluti eða markmið með gjöfum sínum er reynt eftir fremsta megni að koma til móts við þær óskir.
Frjáls framlög eru vel þegin.
Hollvinasjóðurinn er skráður á Almannaheillaskrá, sem þýðir að framlög til hans eru tæk til skattafrádráttar.
Stjórn
Tímabundna stjórn sjóðsins skipar framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða undir stjórn forstjóra.
Velkomið og vel þegið er að bjóða sig fram eða skora á fólk til að taka sæti í stjórn.
Skipulagsskrá
1. grein
Nafn sjóðsins er Hollvinasjóður Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, skammstafað HHVest. Sjóðurinn er með aðsetur á sjúkrahúsinu á Torfnesi á Ísafirði. Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum nr. 19/1988 og stundar ekki atvinnurekstur.
2. grein
Markmið sjóðsins er að efla og styrkja þá starfsemi sem fram fer á eða í tengslum við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og er til þess að bæta heilsu og líf íbúa á svæðinu með beinum eða óbeinum hætti.
Skal það gert með öflun og ávöxtun fjár, meðal annars til tækjakaupa, með því að vekja athygli á og hvetja til styrktar starfseminnar á opinberum vettvangi, með því að styðja við menntun og símenntun starfsfólks og íbúa, með samstarfi við önnur góðgerðafélög og öðrum þeim leiðum sem stjórn telur heilbrigðisstofnuninni eða heilsu íbúa umdæmisins til framdráttar.
3. grein
Stjórn er heimilt að halda skrá yfir hollvini sem greiða reglubundið gjald til sjóðsins, til dæmis árgjald. Hollvinir geta bæði verið einstaklingar og fyrirtæki. Greiðsla gjalds veitir engin sérréttindi nema stjórn ákveði sérstaklega.
4. grein
Tekjur sjóðsins eru gjöld hollvina, frjáls framlög, arður, arfur, ánafnanir og aðrar tekjur. Fé sjóðsins skal ávaxtað á tryggilegan hátt með arðsemi að leiðarljósi.
Fjárframlög má ánafna ákveðinni starfsemi heilbrigðisstofnunarinnar. Dæmi um slíkt eru ákveðin tækjakaup, starfsemi ákveðinnar deildar eða starfsstöðvar og stuðningur við menntun starfsfólks. Stjórn skal virða vilja þeirra sem skilyrt hafa gjafir eða framlög sín. Haldin skal skrá yfir skilyrt fé og gera grein fyrir þeim í ársreikningi. Stjórn er heimilt að fella niður skilyrðingu fjár undir 200.000 kr. miðað við verðlag 2022 og verja þeim fjármunum samkvæmt almennum markmiðum sjóðsins.
Óskilyrtum fjárframlögum ráðstafar stjórn sjóðsins í samræmi við markmið þeirra samkvæmt 2. grein.
5. grein
Stofnframlag sjóðsins er fé sem safnað hefur verið í aðdraganda stofnunar hans auk fjár sem tileinkað var hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði, samtals 4.134.189 kr. Fjárvörsluaðili þess, og þar með stofnandi sjóðsins, er Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, kt. 650914-0740.
Sjóðurinn ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum þeim verðmætum er hún kann að eignast síðar.
6. grein
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið og er fyrsta reikningstímabil frá stofnun sjálfseignarstofnunar og til næstu áramóta. Stjórn skal velja einn eða fleiri skoðunarmenn til að endurskoða reikninga fyrir hvert starfsár. Skoðunarmenn má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða sér um fjárvörslu fyrir sjóðinn og skulu forstjóri og framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar hafa prókúru fyrir reikninga sjóðsins auk gjaldkera í stjórn.
7. grein
Stjórn sjóðsins skal skipuð fimm mönnum til tveggja ára í senn. Fráfarandi stjórn við lok kjörtímabils kýs nýja stjórn eða skipar nýja fulltrúa jafnóðum ef stjórnarmenn ganga úr stjórn. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða tilnefnir tvo stjórnarmenn í stjórn sem skulu, nema framkvæmdastjórn stofnunarinnar ákveði annað, vera forstjóri og framkvæmdastjóri lækninga.
Fyrstu stjórn skipa stjórnendur heilbrigðisstofnunarinnar. Þrír þeirra skulu víkja sæti eftir því sem til tekst að fá til stjórnarstarfa fólk utan stofnunar, jafnvel þó tveggja ára skipunartími skv. 1. mgr. sé ekki runninn út.
Við val stjórnarmanna skal einfaldur meirihluti ráða. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Stjórnin stýrir öllum málefnum sjóðsins og kemur fram út á við fyrir hönd hennar. Stjórnin skal sjá til þess að skipulag og starfsemi hennar sé jafnan í réttu og góðu horfi. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda sjóðinn. Stjórn hans getur veitt umboð fyrir sjóðinn.
Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvægar ákvarðanir má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi fjallað um málið, sé þess nokkur kostur. Halda skal fundargerðabók um það sem gerist á stjórnarfundum. Fundi má halda með fjarfundabúnaði.
8. grein
Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist þess að stjórnarfundur sé haldinn. Stjórninni er heimilt að setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar.
9. grein
Til þess að breyta skipulagsskrá þessari, sameina sjóðinn öðrum sjóði eða leggja hann niður, þarf samþykki allra stjórnarmanna. Slíkt skal svo borið skriflega undir embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra. Komi til niðurlagningar sjóðsins skal hreinni eign hennar varið til markmiðanna sem greint er frá í 2. grein.
10. grein
Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Norðurlandi vestra á skipulagsskrá þessari.
Samþykkt á fundi Ísafirði 29. nóvember 2022.
f.h. Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða
Gylfi Ólafsson forstjóri
Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um um sjóði og stofnanir samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.
Uppfært 13. janúar 2025 (JEÚ)