Endurhæfingardeild HVEST fékk nú á haustdögum gefins þjálfunartækið LiteGait®. Gefandi er Kvenfélagið Hlíf en félaginu var slitið á þessu ári.
LiteGait® er þjálfunartæki sem hægt er að nota í öllum hugsanlegum aðstæðum í endurhæfingu, s.s. ganga innandyra, á göngubretti, í standandi og sitjandi jafnvægisþjálfun svo eitthvað sé nefnt. Notandi tækisins er fullkomlega öruggur í mismunandi stöðum þar sem viðkomandi er festur með mjaðmabelti og stuðningsbeltum við axlir. LiteGait® er hægt að aðlaga að hverjum notanda þar sem möguleikarnir eru margir. Í LiteGait® er notandinn fullkomlega öruggur, enginn hætta er á falli ásamt því að dregið er verulega úr líkamlegu vinnuálagi meðferðaraðilans. Einn af kostum LiteGait® er sá eiginleiki að hægt er að stilla hversu mikla þyngd notandinn tekur í tækinu. Ef notandinn á erfitt með að ganga þegar tekinn er fullur þungi á fætur er auðvelt að stilla hversu mikla þyngd viðkomandi getur tekið til að ná að ganga. Annar eiginleiki tækisins er að notandinn getur ekki eingöngu æft sig í að ganga áfram heldur einnig afturábak og hliðargöngu.
Umboðsaðili LiteGait® á Íslandi er Fastus og 26. september sl. kom fulltrúi þeirra ásamt umboðasaðila tækisins í Evrópu til Ísafjarðar og fengu starfsmenn Endurhæfingardeildar kennslu á tækið og nokkrir notendur fengu að prófa.
HVEST þakkar Kvenfélaginu Hlíf fyrir þessa rausnarlegu gjöf sem mun nýtast við allskonar endurhæfingu á stofnuninni. Hér má svo sjá nokkrar myndir sem teknar voru þegar kynning og kennsla á tækið fór fram.



