Upplýsingar varðandi mislinga birtast á heimasíðu Embætti landlæknis www.landlaeknir.is
Vegna mikilla fyrirspurna varðandi mislingabólusetningar: skv landlækni eru tíu þúsund skammtar af bóluefni komnir í dreifingu á heilbrigðisstofnanir um land allt. Unnið er nú að því að skipuleggja framkvæmd bólusetningar og verður það tilkynnt hér á heimasíðu HVEST þegar þær liggja fyrir.
Ekki þarf að hringja, einstaklingar verða boðaðir í bólusetningu. Bólusett verður niður í 12 mánaða, forgangsraðað verður í bólusetningu.
Skv leiðbeiningum Sóttvarnarlæknis sem gefið var út 15.3.2019:
Framkvæmd bólusetninga
Sóttvarnalæknir hefur í samráði við umdæmis- og svæðislækna ákveðið eftirfarandi:
- Á svæðum þar sem mislingar hafa verið að greinast eins og á Austfjörðum og á höfuðborgarsvæðinu þá verður lögð áhersla á að allir/flestir óbólusettir á aldrinum 6 mánaða til 49 ára (fæddir eftir 1970) fái eina bólusetningu. Bólusettir einstaklingar á aldrinum 6-12 mánaða þurfa bólusetningu nr. 2 við 18 mánaða aldur. Eldri en 12 mánaða þurfa bara eina bólusetningu (og svo aftur við 12 ára).
- Útsettir einstaklingar fái bólusetningu innan 72 klst. eftir útsetningu fyrir mislingum til að minnka líkur á veikindum.
- Útsettir einstaklingar og náinn umgangshópur þeirra sem fer í sóttkví fái bólusetningu jafnvel þó að þeir hafi verið bólusettir áður.
- Ekki á að bólusetja einstaklinga eldri en 49 ára (fæddir fyrir 1970) þar sem miklar líkur eru á að þeir hafi fengið mislinga á sínum tíma.
- Á svæðum þar sem mislingar hafa ekki greinst er mælt með bólusetningu óbólusettra einstaklinga 12 mánaða og eldri (ekki 6-12 mánaða).
- Ekki er talin ástæða til að bólusetja börn yngri en 12 mánaða sérstaklega vegna ferðalaga erlendis, nema í undantekningartilvikum til landa þar sem mislingar eru algengir en eftirfarandi 10 lönd eru með hæstu tíðni mislinga skv. upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni: Madagaskar, Úkraína, Indland, Brasilía, Filipseyjar, Venesúela, Taíland, Pakistan, Yemen og Ísrael.
- Með ofangreindum tilmælum er ekki verið að breyta almennum bólusetningum á Íslandi. Reglubundnar bólusetningar gegn mislingum eru áfram við 18 mánaða aldur og seinni sprauta við 12 ára aldur.
- Rétt er að árétta að staðfest eggjaofnæmi er ekki frábending gegn bólusetningu nema ef viðkomandi er með sögu um lífshættuleg ofnæmisviðbrögð.
Spurningar og svör varðandi mislinga https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item36797/Spurningar-og-svor-vardandi-mislinga