Á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða til að bæði hindra dreifingu Covid-veirunnar og undirbúa viðbragð okkar við fyrsta smiti. Enn sem komið er hefur enginn í umdæminu greinst með smit. Nýjustu tölur um smit og sóttkví verður hægt að sjá á nýjum vef embættis landlæknis og almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, covid.is.
Of langt mál er að telja upp allar aðgerðir og þær breytast frá degi til dags, en stærsta breytingin er sennilega heimsóknabann sem tók gildi í gær. Hafa sjúklingar, heimilisfólk og almenningur sýnt aðgerðunum mikinn skilning. Við vinnum að leiðum til að koma til móts við heimilisfólk og aðstandendur, til dæmis með myndfundabúnaði, en allar ábendingar eru vel þegnar.
Stofnunin hefur sett á fót sérstaka stjórn sem hittist a.m.k. annan hvern dag og yfirfer stöðu mála og aðgerðir. Sérstaklega gott samstarf er við aðrar stofnanir og aðra viðbragðsaðila.
Frá bráðadeild á Ísafirði
Höf.:GÓ