Samkvæmt samkomulagi milli forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Þorsteins Jóhannessonar skurðlæknis og yfirlæknis sjúkrasviðs HVEST, mun Þorsteinn láta af störfum við heilbrigðisstofnunina 15. júlí nk. eftir tæplega 30 ára starf.
Þorsteinn er fæddur á Ísafirði 11. maí 1951 og lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1977 og hlaut sérfræðiréttindi í almennum skurðlækningum á Íslandi 1985 og í Þýskalandi 1986. Hann lauk Doktorsprófi frá Alberts Ludwigs Universität í Freiburg 1988. Þorsteinn á að baki langan og farsælan starfsferil við sjúkrahúsið á Ísafirði, sem spannar heil 27 ár, auk þess sem hann starfaði þar sem aðstoðarmaður á rannsóknarstofu og á röntgendeild á námsárum 1973-1975 og sem læknastúdent á sjúkradeild.

Árið 1990 kom Þorsteinn til starfa við Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði, sem yfirlæknir/forstöðulæknir og gegndi þeirri stöðu fram að sameiningu heilbrigðisstofnana á Vestfjörðum í upphafi árs 2015 og hefur starfað sem yfirlæknir sjúkrasviðs HVEST frá sama tíma. Þorsteinn hefur staðið vaktina sem skurðlæknir á sjúkrahúsinu á Ísafirði nánast sleitulaust í gegnum árin, en tók ársleyfi 2012-2013 er hann fór til starfa sem deildarlæknir fæðingar- og kvensjúkdómadeildar Staufer klinik í Þýskalandi. Þorsteinn hefur auk læknisstarfa komið nokkuð að kennslu í gegnum árin, m.a. kennslu hjúkrunarnema bæði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Þá hefur hann haldið fjölda námskeiða fyrir heilbrigðisstarfsfólk um meðferð slasaðra og bráðveikra og haldið fjölda erinda um læknisfræði og skyld efni fyrir félög og félagasamtök.

Þorsteinn hefur gegnt ýmsum stjórnunar- og trúnaðarstörfum í samfélaginu samhliða læknis- og stjórnunarstörfum innan heilbrigðisstofnunarinnar. Hann sinni m.a. sveitarstjórnarmálum á árunum 1994 – 2002 og gegndi þá um tíma stöðu forseta bæjarstjórnar Ísafjarðar og Ísafjarðarbæjar og var formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar. Þorsteinn hefur setið í ýmsum stjórnum og nefndum og verið virkur í félagsmálum. Þorsteinn á þrjú börn og eiginkona hans er Margrét Kristín Hreinsdóttir hjúkrunarfræðingur.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða vil ég færa Þorsteini bestu þakkir fyrir hans mikla og góða framlag til heilbrigðisþjónustu á Vestfjörðum síðustu þrjá áratugina og fyrir tryggð hans og hollustu við stofnunina sem og skjólstæðinga hennar. Óskum við honum alls hins besta um ókomna tíð.

16. júní 2017/Kristín B. Albertsdóttir, forstjóri HVEST

Höf.:SÞG