Enginn er smitaður af Covid-19 á sunnanverðum Vestfjörðum. Þetta er niðurstaða skimunar Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Íslenskrar erfðagreiningar sem fram fór í lok síðustu viku. Af 417 sýnum, reyndust öll neikvæð, en 33% íbúa á svæðinu komu í sýnatöku sem fram fór í félagsheimilinu á Patreksfirði.
„Það eru gleðifréttir að engin samfélagssmit hafi greinst. Mikil samstaða er samt sem áður á meðal íbúa um að slá ekki slöku við og fylgja ráðleggingum sóttvarnaryfirvalda áfram,“ segir Svava Magnea Matthíasdóttir hjúkrunarstjóri á Patreksfirði.
„Það eru mjög jákvæðar fréttir að öll prófin reyndust neikvæð,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri.
Engin smit hafa því greinst á svæðinu. Einn með lögheimili á svæðinu hefur þó smitast, en dvalið utan héraðsins. Ólíkt norðanverðum Vestfjörðum, hafa engar sérstakar takmarkanir verið í gildi á sunnanverðu svæðinu umfram það sem er á landsvísu. Því munu þær tilslakanir sem gerðar verða 4. maí einnig eiga við Vesturbyggð og Tálknafjörð.
Höf.:SLG