Á heilsugæslunni á Ísafirði býðst öllum þunguðum konum að koma í mæðravernd til ljósmóður og er fyrsta skoðun yfirleitt gerð þegar konur eru gengnar um það bil 10-12 vikur á leið.
Meðgönguvernd hefur þann tilgang að styðja við heilbrigði móður og barns auk þess að miðla fræðslu til verðandi foreldra. Hún er afar mikilvæg því þó flestar meðgöngur gangi vel er nauðsynlegt að greina möguleg frávik frá hinu eðlilega til að tryggja sem best öryggi móður og barns í þungun, fæðingu og sængurlegu. Langflestar konur geta sótt skoðanir á almennri heilsugæslu alla meðgönguna þar sem ljósmóðir sinnir þeim í samvinnu við heilsugæslulækni ef á þarf að halda. Ef undirliggjandi vandamál eru til staðar eða vandkvæði koma upp á meðgöngunni er aftur á móti haft samstarf við áhættumeðgönguvernd Landspítala. Konur í áhættumeðgöngu sem búsettar eru hér á svæðinu geta því oftast verið hér í meðgönguvernd í samstarfi við Landspítala.
Skoðanir eru oftast um 7-10 á meðgöngunni, að meðaltali um þremur skoðunum fleiri fyrir þær konur sem ganga með barn í fyrsta sinn heldur en þær sem eiga börn fyrir. Makar kvenna eru velkomnir með í skoðanir. Ef þörf er á má fjölga skoðunum og hafi konur áhyggjur af einhverju sérstöku á meðgöngunni má alltaf hringja í aðalnúmer heilbrigðisstofnunarinnar í síma 450 4500 og biðja um viðtal við ljósmóður.
Sé um bráðatilvik að ræða er vaktsími ljósmóður 860 7455. Það getur t.d. verið blæðing á meðgöngu, minnkaðar hreyfingar eða miklir og reglulegir samdrættir langt fyrir settan dag.
Ómskoðanir
Öllum konum stendur til boða ómskoðun við 20 vikna meðgöngu þar sem farið er skipulega í gegnum öll líffærakerfi barnsins. Sónar á síðari hluta meðgöngu er eingöngu ráðlagður séu einhverjar ábendingar fyrir hendi, svo sem undirliggjandi sjúkdómar móður eða merki um óvenjulega hægan eða hraðan vöxt fósturs. Þessar ómskoðanir eru ekki í boði hér og þurfa konur að leita á Landspítala til að fara í þær, en þá er ferðakostnaður móður greiddur af sjúkratryggingum.
Margar konur kjósa einnig að fara í ómskoðun við 11-14 vikna meðgöngulengd. Á þessum tíma meðgöngu velja sumir foreldrar að láta gera fósturrannsókn sem nefnd er samþætt líkindamat þar sem metnar eru líkur á litningagöllum fósturs. Sú rannsókn samanstendur af ómskoðun og blóðprufu, og greinist barn með auknar líkur á ákveðnum fósturgöllum er boðið upp á framhaldsrannsóknir. Aðrir foreldrar hafa ekki áhuga á litningarannsóknum en kjósa samt sem áður að fara í ómskoðun á þessum tíma meðgöngu. Þá er hægt að fara í ómskoðun þar sem metinn er fjöldi fóstra, meðgöngulengd og almennt útlit. Þessar ómskoðanir, hvort sem er með eða án samþætts líkindamats, teljast val foreldra en ekki hluti af hefðbundinni meðgönguvernd og eru ekki gjaldfrjálsar. Sjúkratryggingar taka því ekki þátt í ferðakostnaði vegna þeirra nema um læknisfræðilega ábendingu sé að ræða.
Fræðsla
Í fyrstu skoðun í mæðravernd er almenn fræðsla um lífsstíl og heilbrigði á meðgöngu. Um miðbik meðgöngu er svo fjallað sérstaklega um brjóstagjöf. Í öllum skoðunum eru konur hvattar til að leita ráða eða liðsinnis liggi þeim eitthvað á hjarta.
Við 34-36 vikna meðgöngu er öllum konum sem hér eru í mæðravernd boðið upp á að skoða fæðingadeildina og rætt um fæðinguna. Makar eru sérstaklega boðnir velkominir með. Fæðingarfræðslan er veitt óháð því hvort konan hyggst fæða hér á Ísafirði eða annars staðar.
Sérstök fæðingarfræðslunámskeið, brjóstagjafanámskeið eða önnur námskeið tengd barnsburði eða barnauppeldi hafa þó ekki verið í boði hér undanfarin ár, en hafi foreldrar tök á því að sækja slík námskeið annað er fjölmargt í boði:
- 9 mánuðir – einnig námskeið á ensku
- Björkin – einnig námskeið á ensku
- Fæðingarheimili Reykjavíkur – einnig námskeið á ensku og pólsku
- Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins – einnig námskeið á ensku
- Helga Reynis
Ýmis konar fræðslu varðandi þungun og barneignir má finna á netinu, en athuga þarf að ekki eru allar upplýsingar jafn áreiðanlegar og erlendar síður taka oft ekki mið af íslensku heilbrigðiskerfi. Hér má finna nokkra tengla sem geta komið að gagni:
Áhugaverðar instagram síður fyrir verðandi foreldra:
Aðrar upplýsingar
Ljósmóðir í mæðravernd býður stuðning varðandi ýmislegt sem lítur að andlegu og líkamlegu heilbrigði barnshafandi kvenna. Ekki er óalgengt að andleg vanlíðan komi upp á meðgöngu eða eftir fæðingu og getur ljósmóðir þá vísað konum til sálfræðings eða læknis eftir því sem við á. Félagsráðgjöf er einnig í boði hjá Ísafjarðarbæ fyrir þær konur sem á þurfa að halda. Konur geta ýmist leitað þangað beint, eða ljósmóðir getur haft milligöngu um slíka þjónustu.
Konur af erlendum uppruna eiga rétt á túlkaþjónustu og getur ljósmóðir einnig haft milligöngu um hana.
Hafi konur sögu um áföll í lífinu gera afleiðingar stundum vart við sig á meðgöngu og mikilvægt er að fá viðeigandi stuðnig. Sé ofbeldi til staðar í nánum samböndum skapar það eina þá alvarlegustu ógn sem getur steðjað að móður og ófæddu barni hennar á meðgöngu og eftir hana. Konur sem verða fyrir ofbeldi á meðgöngu, hvort sem er andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu eru hvattar til að leita sér hjálpar. Ljósmóðir er alltaf reiðubúin að aðstoða þær konur sem orðið hafa fyrir ofbeldi og er bundin þagnarskyldu varðandi öll þau málefni sem rædd eru í mæðravernd, nema þegar barnaverndarlög kveða á um annað. Einnig er hægt að leita beint til annarra aðila, svo sem lögreglu eða félagasamtaka.
Uppfært 26. apríl 2022 (MÞ)