Vissir þú að á Vestfjörðum er streita fullorðinna minnst, ölvunardrykkja framhaldsskólanema minnst og hlutfallslega fæstir framhaldsskólanemar sofa of stutt. Allt miðað við landsmeðaltalið. Fullorðnir eru líka duglegri við að nota virka ferðamáta á leið til vinnu, til dæmis göngu eða reiðhjól, og drekka minna gos, á meðan krakkar í efri bekkjum grunnskóla nota síður reiðhjól eða tvo jafnfljóta til að koma sér til og frá skóla. Í nýju gögnunum kemur einnig fram að fleiri fullorðnir á Vestfjörðum sofa of stutt og íbúar eru ólíklegri til að heimsækja sérfræðilækna.
Þetta kemur fram í nýjum lýðheilsuvísum sem Landlæknisembættið kynnti á fundi í Reykjanesbæ þann 13. júní. Lýðheilsuvísar eru mælanlegir þættir sem gefa vísbendingu um heilbrigði íbúa, líðan þeirra og aðgengi að heilbrigðisþjónustu svo fátt eitt sé nefnt. Með því að mæla sömu hlutina um allt land má bera saman ýmsa þætti í heilbrigði og líðan þjónðarinnar eftir landshlutum. Bæjarfélög og stofnanir geta nýtt lýðheilsuvísa sem hvatningu til að bæta þjónustu.
Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir lýðheilsuvísana mikilvæga vísbendingu um hvað sé á réttri leið og hvað megi betur fara: „Við lítum svo á að hlutverk okkar sé ekki bara innan veggja stofnunarinnar heldur einnig almennt í samfélaginu, að gera það sem hægt er til að fólk þurfi sem minnst að koma til okkar. Þetta gerist dæmis með því að heilsugæslan fylgi ýmsum gæðaviðmiðunum sem settar eru um sýklalyfjanotkun, eftirfylgni með krabbameinsskimun, og fleira. En við viljum einnig gera þetta á breiðari grundvelli, til dæmis með því að hvetja til hreyfingar.“
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða var fyrst á landsvísu til að eiga beina aðild að samkomulagi Embættis landlæknis og sveitarfélags um heilsueflandi samfélag, þegar samningur var undirritaður í haust við Ísafjarðarbæ.
Flestir sem eiga leið um götur Ísafjarðarbæjar um áttaleytið að morgni eða í lok vinnudags hafa séð til Gylfa á fjölskyldureiðhjólinu sem gefur bæjarlífinu óneitanlega skemmtilegan svip. Virkur ferðamáti er honum hugleikinn:
„Við sjáum nú að þó Vestfirðingar séu enn virkastir í að ferðast til og frá vinnu og skóla er það sama ekki hægt að segja um unglingana í 8.-10. bekk. Nú eru upplýsingar um ferðamáta þeirra til og frá skóla birtar í fyrsta sinn, og þá virðast vestfirsku unglingarnir hjóla og ganga minna en jafnaldrar annarsstaðar á landinu. Mér er mikið hjartans mál að hér takist betur til.“
Lýðheilsuvísar Landlæknisembættis