Þrjú Covid-19 smit hafa greinst á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík. Þetta var staðfest með niðurstöðum greininga í morgun. Áfram eru aðrir átta íbúar í sóttkví og án einkenna.
Heimsóknabann hefur gilt á heimilinu um hríð, gripið hefur verið til nauðsynlegra og hertra sóttvarnaaðgerða og öllum leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda fylgt.
„Aðgerðir og áherslur okkar og heilbrigðiskerfisins í heild hafa allar miðað að því að takmarka smit á hjúkrunarheimilum. Þessi þrjú smit eru því mikið áfall,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Mikil samheldni er í hópi starfsmanna, sem að miklum hluta er í sóttkví. Samfélagið er allt saman í þessu verkefni. Af sterkum viðbrögðum við fjársöfnun hópsins Stöndum saman Vestfirðir er ljóst að velvilji almennings er mikill.
Slæmt veður er á heiðum en vegum hefur verið haldið opnum fyrir bíla sem flutt hafa sýni af svæðinu. Þá hefur Vegagerðin aðstoðað fólk úr bakvarðasveit við að komast á milli landshluta. Björgunarsveitir hafa verið til taks og meðal annars sinnt flutningi á sýnum.
Samtals sjö smit hafa verið staðfest síðasta sólarhringinn á Ísafirði og í Bolungarvík. Um fjórðungur Bolvíkinga er í sóttkví.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða biðlar sérstaklega til hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, sem komið geta með skömmum fyrirvara, að skrá sig í bakvarðasveit stofnunarinnar á netfanginu hvest@hvest.is. Starfsfólk þarf til starfa á hjúkrunarheimilum og bráðadeild á norðanverðum Vestfjörðum.
Höf.:GÓ