Andri Konráðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri lækninga á HVEST frá 1. september n.k. Tekur hann við af Hallgrími Kjartanssyni, sem verður áfram yfirlæknir heilsugæslusviðs HVEST. Hallgrímur gegndi því starfi meðfram framkvæmdastjórastarfinu, en lét það í hendur Maríu Ólafsdóttur, heilsugæslulækni, sem ráðin var til þess starfs tímabundið í 1 ár, en er nú á förum innan skamms.
Andri er mörgum hér vestra að góðu kunnur, en hann var læknir á heilsugæslusviði HVEST á Ísafirði á árunum 2001-2003. Hann er sérfræðingur í almennum skurðlækningum og hefur starfað sem slíkur í Stavanger í Noregi undanfarin 10 ár, síðustu 2 árin sem yfirlæknir. Hann mun því starfa sem skurðlæknir á HVEST meðfram framkvæmdastjórastarfinu. Skurðlækningarnar eru ákveðin kjölfesta í þjónustu HVEST og er forsenda fyrir margri annarri heilbrigðisþjónustu, eins og fæðingum til dæmis.
Almennir skurðlæknar með víðtæka skurðreynslu eru ekki á hverju strái, sérstaklega ef litið er til þarfa landsbyggðarsjúkrahúss. Við bjóðum Andra velkominn til starfa í haust og teljum okkur heppin að hafa fengið svo góðan fagmann til HVEST.
Andri Konráðsson
Höf.:HH