Frá og með þriðjudeginum 27. janúar næstkomandi verður tekin upp reglubundin leghálskrabbameinsleit á heilsugæslunni á Ísafirði. Sýnatakan er í samstarfi við leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands en Erla Rún Sigurjónsdóttir ljósmóðir sér skoðanirnar. Fyrirhugað er að bjóða upp á þessa þjónustu í hverjum mánuði frá og með áramótum. Eingöngu er um leghálsskoðanir að ræða en áfram verður boðið upp á skimun fyrir brjóstakrabbameini á vegum leitarstöðvarinnar árlega líkt og verið hefur.

Við viljum minna konur á mikilvægi þess að sækja skoðanir en allar konur á aldrinum 23-65 ára fá boðsbréf í leghálskrabbameinsleit á þriggja ára fresti og oftar ef þörf krefur. Hér á landi hefur skipuleg leit að leghálskrabbameini dregið úr fjölda nýrra tilfella á ári um 70% og dánartíðni um 90% frá því leit hófst árið 1964. Þessi góði árangur byggir að sjálfsögðu mikið til á góðri mætingu kvenna.

Allar konur sem fá boðsbréf á næstu vikum eru hvattar til að bóka tíma.


Höf.:ÞÓ