Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Daníel Jakobsson bæjarstjóri undirrituðu í dag samning um byggingu 30 rýma hjúkrunarheimilis á Ísafirði. Einnig var undirritað samkomulag um samstarfsverkefni í öldrunarþjónustu á svæðinu, með áherslu á Flateyri.
Ekkert hjúkrunarheimili er á Ísafirði en á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði er rekin öldrunarlækningadeild sem annast langlegusjúklinga. Á fundi ríkisstjórnarinnar sem haldinn var á Ísafirði 5. apríl síðastliðinn var samþykkt að leita samstarfs við bæjarfélagið um byggingu og rekstur 30 rýma hjúkrunarheimilis sem fjármögnuð yrði með svokallaðri leiguleið. Heimamenn annast hönnun og byggingu heimilisins, sveitarfélaginu er tryggð fjármögnun framkvæmdanna með láni frá Íbúðalánasjóði en Framkvæmdasjóður aldraðra greiðir sveitarfélaginu húsaleigu til 40 ára sem nemur 85% afborgunar af láninu. Áætlaðar greiðslur Framkvæmdasjóðs eru 60 milljónir króna á ári.Nýja hjúkrunarheimilið mun leysa af hólmi þá þjónustu við hjúkrunarsjúklinga sem hingað til hefur verið veitt á Heilbrigðisstofnuninni. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir augljóst að bygging hjúkrunarheimilis muni gjörbreyta allri aðstöðu fyrir aldraða á svæðinu og aðra þá sem heilsu sinnar vegna geta ekki búið á eigin heimili: ?Hér verður byggt samkvæmt viðmiðum velferðarráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila þar sem áhersla er lögð á heimilislegar aðstæður þar sem settar eru fram ákveðnar kröfur um ytra og innra skipulag, stærðir rýma, aðgengismál og búnað í samræmi við það sem best gerist til að þjóna þörfum íbúa, aðstandenda og starfsfólks.?
Samstarfsverkefni um öldrunarþjónustu
Auk samnings um hjúkrunarheimili var í dag undirritað samkomulag um samstarfsverkefni á sviði öldrunarþjónustu í Ísafjarðarbæ með sérstaka áherslu á bættar aðstæður á Flateyri. Verkefnið er hluti af samþykkt frá fundi ríkisstjórnarinnar á Ísafirði síðastliðið vor.
Aðilar að samkomulaginu eru Ísafjarðarbær, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og velferðarráðuneytið. Samkomulagið er byggt á sameiginlegri tillögu bæjarins og heilbrigðisstofnunarinnar og felur í sér endurbætur á húsnæði, vinnustofu og baðherbergi í Félagsbæ á Flateyri og kaupum á tækjabúnaði og bifreið hjá heilbrigðisstofnuninni.
Ríkisstjórnin ráðstafar 20,0 m.kr. til verkefnisins en framkvæmd þess er í höndum heimamanna.
Þröstur Óskarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, Daníel Jakobsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Eiríkur Finnur Greipsson formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og nefndar um byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði skrifuðu undir samkomulag um samstarfsverkefni um öldrunarþjónustu.
(tekið af vef Velferðarráðuneytisins)
Höf.:ÞÓ