Föstudaginn 17. desember s.l. var niðurstaða söfnunar fyrir sneiðmyndatæki kynnt.

Forsvarsmenn fjársöfnunar fyrir sneiðmyndatæki fyrir Heilbrigðisstofnun Ísafjarðarbæjar afhenti forsvarsmönnum Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði gjafabréf að fjárhæð 21,5 milljón króna rétt fyrir jól.

?Það söfnuðust tæpar 20 milljónir en restin voru vextir. Við erum afskaplega hrærð hversu vel tókst að safna fyrir tækinu en Við forsvarsmenn söfnunarinnar erum leið yfir því hversu langan tíma það tók að skila af okkur þessari gjöf en það voru óviðráðanlegar orsakir sem réðu því. Við erum afskaplega hrærð yfir því hversu vel til tókst og yfir örlæti fólks en gjafirnar voru á öllum á skalanum og upp í 2 milljónir króna?, segir Eiríkur Finnur Greipsson, sem afhenti gjafabréfið við fjölmennt samsæti þar sem saman voru komnir aðstandendur söfnunarinnar og starfsfólk sjúkrahússins.

Sjálft tækið kostaði um 11 milljónir króna og umframféð verður lagt inn í minningarsjóð Úlfs Gunnarssonar, fyrrverandi læknis, og nýtt til tækjakaupa. (frétt og mynd af bb.is)

Á þessum tímamótum vill starfsfólk og stjórnendur stofnunarinnar nota tækifærið og þakka öllum velunnurum Heilsugæslustöðvarinnar og Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði kærlega fyrir hinn mikla velvilja og hlýhug sem þeir hafa sýnt nú sem áður.

Á myndinni má sjá Eirík Finn Greipsson afhenda Þorsteini Jóhannessyni gjafabréfið.


Höf.:ÞÓ