Á blaðamannafundi í dag kom fram að hópur velunnara sjúkrahússins hefur hafið söfnun fyrir tölvusneiðmyndatæki. Hópurinn hefur sent frá sér meðfylgjandi fréttatilkynningu.

 Fréttatilkynning

 

Undanfarnar vikur hafa undirritaðir aðlilar sem hafa mikinn áhuga á að efla VESTFIRSKA byggð, undirbúið fjársöfnun til þess að kaupa sneiðmyndatæki til Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði. Með góðu samstarfi og samráði við stjórnendur Fjórðungssjúkrahússins og Heilsugæslunnar á Ísafirði hefur nú verið ákveðið að hrinda af stað fjáröflunarverkefni sem miðar að því að keypt verði tölvusneiðmyndatæki, sem staðsett yrði á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði.

 

Um er að ræða notað en öflugt tæki, svo kallað fjögurra sneiða tæki. Kaupverð tækisins er tæpar 11 milljónir króna og að mati starfandi lækna við sjúkrahúsið og heilsugæsluna á Ísafirði uppfyllir það kröfur sem gerðar eru til sneiðmyndarannsókna í dag. Með því að bjóða upp á rannsóknir á þessu sviði, er ljóst að öryggi og hraði í greiningu sjúkdóma mun margfaldast.

 

Sífellt stærri hluti rannsókna á sjúkrahúsum er gerður í sneiðmyndatækjum og er fjöldi þeirra sjúklinga sem frá Ísafirði eru sendir í slíkar rannsóknir á annað hundrað á ári. Miðað við reynslu annars staðar frá, þá er líklegt ef unnt yrði að bjóða upp á sneiðmyndarannsóknir hér, muni sá fjöldi aukast verulega. Ekki þarf að fjölyrða um hagkvæmni þess að geta boðið upp á slíkar rannsóknir í heimabyggð.

 

Ákveðið hefur verið að leita eftir samstarfi við einstaklinga, félagasamtök, fyrirtæki, sveitarstjórnir og heilbrigðis- og tryggingaráðuneyti. Hefur málið þegar verið kynnt fyrir heilbrigðisráðherra. Í þessari viku verður sent út dreifibréf þar sem óskað verður eftir stuðningi við þetta mikilvæga verkefni.

 

Það er okkar einlæga von að mál þetta hljóti góðar undirtektir og að sneiðmyndatækið verði tekið í notkun á Ísafirði fljótlega.

 

Ísafirði 5. september 2005

F.h. undirbúningshóps

 

Eiríkur Finnur Greipsson

Sigríður Björk Guðjónsdóttir

Gísli Jón Hjaltason

Gylfi Guðmunsson f.h. Félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum

Jóhanna Oddsdóttir f.h. Vestfjarðadeildar Hjúkrunarfél. Íslands

Guðlaug Sveinbjörnsdóttir f.h. Félags sjúkraliða á Vestfjörðum

Guðrún Guðmannsdóttir f.h. Lífeyrissjóðs Vestfirðinga

Pétur Sigurðsson f.h. Verkalýðsfélags Vestfirðinga

Einar Jónatansson f.h. Vinnuveitendafélags Vestfjarða

 

Fyrir þá sem vilja leggja söfnuninni lið má benda á reikningsnúmer söfnunarinnar, 1128-05-1144 og er kennitala reikningshafa 610269-2499.

 

Á myndinni má sjá Úrsúlu Siegle geislafræðing við röntgentæki sjúkrahússins.



Höf.:ÞÓ