Það var 1. september 1981 sem Hörður Högnason, þá 29 ára hjúkrunarfræðingur, kom í fast starf hjá Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði, sem þá var rekið í gamla sjúkrahúsinu. Þá hafði hann verið nokkrum sinnum afleysingamaður meðfram skóla en ákvað að ráða sig til skamms tíma. Eins og oft vill verða ílentist hann og tók síðar hann við af móður sinni sem framkvæmdastjóri hjúkrunar í stofnun sem haft hefur a.m.k. fimm kennitölur. Hann hefur starfað fyrir stofnunina óslitið síðan, ef frá eru taldir nokkrir mánuðir þar sem hann var við sjálfboðaliðastörf á stríðsskurðspítala í Tælandi árið 1983.

Prófskírteinið, sem undirritað var af skólastjóra hjúkrunarskólans 13. september 1979, bar þess merki að þá var óalgengt að karlar sinntu hjúkrun; þar er misritað að hún hafi stundað verklegt nám á ýmsum stöðum og hlotið fyrir það prýðilega einkunn.

Hörður hefur alltaf haft í nógu að snúast. Meðfram störfum sem framkvæmdastjóri hjúkrunar—sem í gegnum tíðina hefur innifalið mörg hlutverk sem nú falla til dæmis á innkaupastjóra, launafulltrúa og deildarstjóra—hefur hann verið svæfingarhjúkrunarfræðingur stofnunarinnar. Sem slíkur hefur hann verið meira og minna á bakvakt alla sína starfstíð. Alltaf var Hörður með skrúfvél á skrifborðinu sínu því að mörgu er að hyggja á stórri stofnun. Þá hefur hann verið virkur í félagslífi, sjálfboðaliðastörfum og bæjarmálum.

Nýjungagirni hefur alltaf verið rík í Herði, og hann hefur verið duglegur að sækja sér endurmenntun, bæði í störfum sínum fyrir stofnunina og sem sjálfboðaliði Rauða krossins. Meðal skírteina í þykkri ferilskrá hefur fyrirsögnina „Hjúkrunarstjórnun á tímum niðurskurðar“ fyrir námskeið sem hann sat árið 1995. Ljóst er að það námskeið hefur komið í góðar þarfir fyrir það sem eftir kom.

Hörður var kvaddur við athöfn 4. desember og lauk formlega störfum um áramótin. Í ræðu sinni sagði Gylfi Ólafsson forstjóri að Hörður væri vinamargur, jákvæður, ljúfur, góður og maður sátta. Honum væri mjög annt um stofnunina, starfsfólk hennar og skjólstæðinga. Alla tíð hefði verið litið upp til hans, auðvelt væri að leita til hans og samstarfsfólk sammála um að hann væri góður kennari. Í gegnum áföll og hræringar innan og utan stofnunar var Hörður stólpi sem hægt var að treysta á.

Hörður sagði í kveðjuræðu sinni að tíminn hafi liðið hratt og að vinnan hafi verið skemmtileg, krefjandi og gefandi; vinnustaðurinn góður og samstarfsfólkið afbragðsgott. Hann sagði að framtíð stofnunarinnar væri björt, og óskaði eftirmönnum sínum góðs gengis; Hildur Elísabet Pétursdóttir tók við af Herði sem framkvæmdastjóri hjúkrunar og Sara Guðmundsdóttir sem svæfingarhjúkrunarfræðingur.


Hörður á kaffistofu gamla sjúkrahússins í ágúst 1984 (af baksíðu DV að dæma). Þarna var nýja sjúkrahúsið risið en starfsemin flutti ekki að fullu fyrr en 1989.


Fara þurfti út með lík niður í líkgeymslu, eins og Hörður (með skeggið) gerir hér.


Hörður á skrifstofu sinni haustið 2019

Höf.:GÓ