A A A

FŠ­ingadeild HVEST

Á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði stendur konum til boða samfelld þjónusta ljósmóður í meðgönguvernd, fæðingu og sængurlegu. Einnig má leita til ljósmóður í tengslum við brjóstagjöf frá fæðingu og út brjóstagjafatímabilið.  Áhersla er lögð á vandaða og persónulega þjónustu og aðstaða fæðingadeildarinnar gerir okkur kleift að bjóða upp á samveru beggja foreldra og barns fyrstu dagana eftir fæðingu.

 

Fæðingadeildin hefur yfir að ráða rúmgóðri fæðingarstofu með baði  og sturtu og sér snyrtingu.  Á deildinni eru einnig tvær heimilislegar sængurlegustofur með hjónarúmum auk einnar minni stofu með einstaklingsrúmi, lítil barnastofa, snyrting með sturtu og setustofa.

 

Á ári hverju eru um 50-60 konur í meðgönguvernd hér á Ísafirði, en á fæðingadeildinni er tekið á móti um það bil 40 börnum á ári.  Konum sem stríða við fylgikvilla á meðgöngu eða hafa undirliggjandi sjúkdóma er einnig veitt göngudeildarþjónusta á fæðingadeildinni, en unnið er í nánu samstarfi við áhættumeðgönguvernd LSH þegar það á við.

 

Öllum heilbrigðum konum sem eiga að baki eðlilega meðgöngu einbura stendur til boða að fæða hér, og einnig konum með væga fylgikvilla meðgöngu. Langflestar konur sem hér koma inn til fæðingar geta vænst þess að fæðing gangi eðlilega fyrir sig, en á stofnuninni er samt sem áður aðgangur að skurðstofu allan sólarhringinn ef á þarf að halda. Á árunum 2011-2015 fæddust rúm  11% barna hér með keisaraskurði,  og þar af var þriðjungur aðgerða fyrirfram ákveðinn.

 

Alltaf eru einhverjar konur sem hér hafa verið í meðgönguvernd sem af einhverjum ástæðum þurfa eða kjósa að fæða á öðrum fæðingastöðum.  Langflestum þeirra stendur samt sem áður til boða að liggja sængurlegu hér á deildinni eða fá þjónustu ljósmóður heim og sjálfsagt að ræða þau mál við ljósmóður.

 

Mikilvægt er að konur í fæðingu njóti góðs stuðnings maka og/eða annarra nákominna en geti jafnframt fætt ótruflaðar í rólegu umhverfi. Eru konur því hvattar til að velja með sér þá fæðingarfélaga sem þær treysta best til að veita sér stuðning en bent er á að fjöldi áhorfenda í fæðingu er sjaldnast til bóta.

 

Einnig skiptir máli að sængurkonur geti hvílst vel að fæðingu lokinni, nýbakaðir foreldrar og systkini hafi næði til að mynda tengsl við nýburann og mæður hafi nægan tíma til að koma brjóstagjöf af stað. Því er farið fram á það að heimsóknum til sængurkvenna sé haldið í lágmarki og bent á að þær eru aðeins ætlaðar nákomnum.  Allir heimsóknargestir eru hvattir til að þvo sér vel um hendur áður en heilsað er upp á sængurkonur og vegna hættu á sýkingum eru heimsóknir barna yngri en 12 ára, annarra en systkina, ekki ráðlagðar.

 

Starfandi ljósmóðir er Erla Rún Sigurjónsdóttir. Hægt er að fá samband við hana á dagvinnutíma ef hringt er í aðalnúmer heilbrigðisstofnunarinnar,  450-4500. Ef fæðing er í aðsigi eða um önnur bráðatilvik er að ræða má ná í ljósmóður í vaktsíma 860-7455 allan sólarhringinn.

 

Tenglar

Vefumsjˇn