14 manna hópur lækna og hjúkrunarfræðinga á stofnuninni sat námskeið í sérhæfðri endurlífgun helgina 19.-21. nóvember.

Námskeiðið er sérhannað og staðlað af bandarísku hjartasamtökunum (American Heart Association) í samstarfi við færustu sérfræðinga á sínu sviði  til að gera þátttakendur betur færa um að stjórna fagfólki við endurlífgun eftir meiri háttar hjartaáföll og hjartastopp. Þeir sem mega sitja svona námskeið eru læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraflutningamenn með neyðarflutningsréttindi og bráðatæknar (paramedics). Námskeiðið „Sérhæfð endurlífgun“ (ACLS: Advanced Cardiac Life Support) er mjög yfirgripsmikið, bæði verklegt og bóklegt, og þurfti fólk m.a. að lesa tæplega 500 blaðsíðna bók til undirbúnings. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Ásta Eymundsdóttir, læknir við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og bráðatæknarnir Lárus Petersen og Gunnar Björgvinsson, frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Námskeiðinu lauk á sunnudeginum með verklegu og skriflegu prófi og er skemst frá því að segja, að öllum gekk vel að leysa þær þrautir, sem fyrir þá voru lagðar.
Í verklegu æfingunum voru notaðar 2 mjög fullkomnar, tölvustýrðar dúkkur, sem hægt er að láta lenda í hvers konar hjartaáföllum, hjartsláttartruflunum og hjartastoppi. Hægt er að stjórna og sýna öndunarhljóð þeirra og púls og sjá áhrif af lyfjagjöfum. Einnig var hægt að tengja þær við hjartastuðtæki og nota það til að stuða „sjúklingana“. Til fróðleiks má geta þess, að hvor um sig kosta dúkkurnar, ásamt fylgihlutum, um 2 milljónir króna.


Höf.:HH