Geðheilsuteymi HVest – helstu upplýsingar

 

 

Aðild að þjónustu teymisins

Þjónusta Geðheilsuteymis HVEST er fyrir einstaklinga 18 ára og eldri sem greindir eru með geðsjúkdóm eða geðraskanir og þurfa á þéttri þverfaglegri aðstoð að halda, þar sem geðröskun er aðalvandi. Einstaklingur telst vera með geðröskun ef hann býr við andlega líðan eða ástand sem skerðir möguleika hans til lífsgæða, tilfinningalegra og/eða félagslegra samskipta, þátttöku í námi eða starfi, eða virkni í samfélaginu að öðru leyti.

Umsóknir um þjónustu teymisins skulu berast teymisstjóra á þar til gerðu umsóknareyðublaði en tekið er við umsóknum frá starfsólki heilbrigðis- og velferðarþjónustu.

Strangt til tekið sinnir Geðheilsuteymið ekki einstaklingum með þroskahamlanir, á einhverfurófi, með virkan fíknivanda eða þeim sem sviptir eru sjálfræði en hvert og eitt tilfelli er metið hverju sinni. Þá er Geðheilsuteymi HVEST ekki ætlað að sinna bráðatilfellum en leitast verður við að mæta þörfum nýrra þjónustuþega eins fljótt og auðið er.

 

Markmið þjónustunnar

Þjónusta Geðheilsuteymis HVEST byggir á valdeflingu og batahugmyndafræði, sem felst í að styðja þjónustuþega í sínu persónulega bataferli.

Helstu markmið eru að stuðla að og viðhalda bata með einstaklingsmiðaðri þjónustu og tryggja samfellu og samþættingu í meðferð. Áhersla er lögð á að efla sálrænt og félagslegt heilbrigði einstaklingsins og fjölskyldu hans, hvetja til sjálfshjálpar og sjálfsvirðingar og styðja einstaklinginn í að bæði lifa innihaldsríku lífi og taka virkan þátt í samfélaginu.

Geðheilsuteymið leitast við að koma í veg fyrir innlagnir á sjúkrahús eins og hægt er, fækka endurinnlögnum og styrkja aðlögunarhæfni eftir útskrift.

 

Starfsemi teymisins

Geðheilsuteymi HVEST er hluti af Heilbrigðisstofnun Vestfjarða en það vinnur bæði eftir gagnreyndum aðferðum og samkvæmt klínískum leiðbeiningum Landlæknis.

Þjónustan fer fram með heimavitjunum eða viðtölum á starfsstöðvum Geðheilsuteymisins, eftir því hvað henta þykir hverju sinni. Fjöldi vitjana og viðtala er einstaklingsbundinn og fer meðal annars eftir líðan og ástandi þjónustuþega og hvaða þætti á að vinna með í meðferð.  Auk samtalsmeðferðar er boðið upp á hópnámskeið í hugrænni atferlismeðferð (HAM).

Fyrstu viðtöl/heimavitjanir fara í að fá greinagóðar upplýsingar frá þjónustuþega og meta líðan og núverandi ástand hans. Farið er yfir umsóknina, mat lagt á þjónustuþörf viðkomandi og starfsemi Geðheilsuteymisins kynnt.

 

Í upphafi þjónustu er gerð meðferðaráætlun í samvinnu við þjónustuþega. Þar eru sett fram skýr og mælanleg markmið, sá vandi sem vinna á með er skilgreindur, ákveðnar eru leiðir til að vinna að bata og áætlun gerð um lengd meðferðar. Þjónustuþegi og málastjóri skrifa undir meðferðarsaming, sem er jafnframt meðferðaráætlun og þjónustuþegi fær afrit.

Endurmat er gert á þriggja til sex mánaða fresti. Í endurmati eru markmið þjónustunnar endurskoðuð í samræmi við þarfir þjónustuþega. Farið er yfir þau markmið sem sett voru í upphafi, hvernig þjónustan hefur gengið og hvað á að halda áfram að vinna með.

 

Hlutverk teymisins er að halda utan um þjónustu við skjólstæðinga teymisins. Teymið leitast því við að hafa yfirlit yfir þarfir þjónustuþega varðandi stuðning og sértæka vinnu teymisins, miðla því til annarra starfsmanna og er í samvinnu við aðrar stofnanir eftir þörfum.  

 

Áhersla er lögð á að greina og vinna með viðhaldandi þætti geðraskana, svo sem aðstæður, hugsanir, minningar, líðan, líkamleg einkenni og hegðun þjónustuþega. Markmið meðferðarinnar er að finna hjálpleg bjargráð og draga úr áhrifum hins geðræna vanda á daglegt líf eins og hægt er.  

Starfsmenn Geðheilsuteymis HVEST leitast ávallt við að hvetja þjónustuþega til að bera ábyrgð eftir bestu getu og vera virkur í eigin meðferð og bataferli.

 

  

Ef þjónustan er ekki nýtt

Mikilvægt er að láta vita eins fljótt og auðið er ef viðtalstími eða önnur þjónusta Geðheilsuteymis HVEST verður ekki nýtt, því ónýttir tímar koma niður á öðrum þjónustuþegum og þeim sem bíða eftir þjónustunni.

Ef þjónustuþegi nýtir ekki vitjanir/viðtöl verða ástæður þess skoðaðar og ákvörðun um framhaldið tekin í kjölfarið. Ef um nýjan þjónustuþega er að ræða og viðkomandi hefur ekki getað tekið á móti þjónustu Geðheilsuteymis HVEST í sex vikur samfellt ber að útskrifa þjónustuþega en jafnframt bjóða honum að sækja um seinna þegar hann er tilbúinn að nýta sér þjónustuna.

Þegar afbókanir á vitjunum/viðtölum á þriggja mánaða tímabili eru fleiri en þær vitjanir/viðtöl sem áttu sér stað verður rætt við þjónustuþega. Ef ástundun lagast ekki næstu þrjár vikurnar ber að útskrifa þjónustuþega en jafnframt að bjóða honum að sækja um seinna þegar hann er tilbúinn að nýta þjónustuna.

 

Við lok meðferðar Geðheilsuteymis

Þar sem meðferð þjónustuþega er einstaklingsbundin er tímalengd meðferða misjöfn. Þjónusta geðheilsuteymisins er almennt ekki hugsuð sem langtímameðferð en hvert tilfelli er skoðað út frá þörfum þjónustuþegans.

Ólíkar ástæður geta verið að baki útskrift úr teyminu. Þjónustuþegi útskrifast úr teyminu ýmist þegar líðan er orðin stöðug, markmiðum sem sett voru í upphafi hefur verið náð, þjónustuþegi getur ekki eða kýs að nýta sér ekki þjónustu teymisins eða ef ljóst verður að viðkomandi þarf meiri þjónustu en teymið getur veitt.

Geðheilsuteymið er þjónustuþega innan handar við að tengjast öðrum úrræðum eftir útskrift ef þörf er á slíku.

  

Ef upp koma spurningar eða ef frekari upplýsinga er óskað er bent á að hafa samband við teymistjóra Geðheilsuteymis:

Thelma B. Guðmundsdóttir

thelma@hvest.is / 450-4528 / gsm: 862 7424

Símanúmer:

HVest á Ísafirði (Bolungarvík, Flateyri, Suðureyri, Súðavík og Þingeyri) – 450 4500

HVest á Patreksfirði (Bíldudal og Tálknafirði) – 450 2000


Í neyðartilvikum er hægt að hafa samband við

Geðsvið Landspítala við Hringbraut

Bráðaþjónustu göngudeildar geðsviðs

Sími: 543-4050 (virka daga frá 12-19 + helgar og hátíðardagar frá 13-17)

Í neyðartilvikum utan þessa tíma er hægt að leita til bráðamóttökunnar í Fossvogi

Bráðamóttaka Landspítala í Fossvogi

Sími: 543-1000 (opið allan sólarhringinn alla daga)

Neyðarlínan

Sími: 112 (opið allan sólarhringinn alla daga)

Hjálparsími Rauða krossins

Sími: 1717 (opið allan sólarhringinn alla daga)


Höf.:SÞG