Öllum konum sem sækja meðgönguvernd á heilsugæslunni á Ísafirði gefst kostur á að skoða fæðingadeildina ásamt maka eða öðrum fæðingarfélaga undir lok meðgöngu og er þá einnig rætt um fæðinguna við hvert par fyrir sig.
Hafir þú í huga að fæða á fæðingadeildinni á Ísafirði en hefur ekki verið hér í meðgönguvernd er æskilegt að hafa samband í síma 450 4500 á dagvinnutíma og fá að heyra í ljósmóður. Best er að hafa samband í kringum 30 vikna meðgöngu til að tími gefist fyrir þig að koma og skoða deildina hafir þú áhuga á því.
Það sem gott er að hafa meðferðis á fæðingardeildina
Að eignast barn er eitt það stórkostlegasta sem þú munt upplifa um ævina og eitt mesta afrek sem þú munt vinna. Mikilvægasta veganestið í fæðingu er jákvæðni, bjartsýni og trú á sjálfa þig. Mundu að náttúran sér til þess að líkami þinn kann að fæða á sama hátt og hann kann að ganga með barn. Svo má ekki gleyma stuðningsaðilanum, hann er mun mikilvægari en allt dótið sem mögulega gæti gleymst heima.
Fyrir fæðinguna er ágætt að hafa með sér eitthvað létt að narta í sem gefur orku. Einkum er gott að hafa með sér orkuríka drykki, þó ekki með koffeini, fyrir fæðandi konuna. Stuðningsaðilar mega hafa koffíndrykki, getur jafnvel verið gott ef fæðing hefst seint að kvöldi eða nóttu. Eins má hafa með sér tónlist, á staðnum er geisladiska spilari en hátalarann sem honum fylgir er ekki hægt að tengja við síma.
Gott er að hafa meðferðis þægileg föt, bæði mjúkar buxur og boli til að vera í bæði í fæðingunni og eftir hana og slopp og inniskó ef þú vilt. Ef þú vilt nýta þér bað eða sturtu í fæðingunni má líka hafa með sér bikiní en það er ekki nauðsynlegt, aðstandendur þurfa þó að hafa sundföt óski þeir eftir að fylgja konu í bað/sturtu.
Tannbursta, tannkrem hárbursta og snyrtidót er gott að hafa og einnig sjampó og hárnæringu. Handklæði, þvottapokar og hárþurrka eru á staðnum og einnig sjúkrahússbolir, stór bindi og netanærbuxur. Minni dömubindi er gott að hafa með sér.
Fyrir barnið þarf að hafa bílstól fyrir heimferð og gott er að muna að vera búin að gæta vel að því hvernig festa á barnið í stólinn og stólinn í bílinn. Einnig þarf að hafa ungbarnateppi og heimferðaföt á barnið, og gjarnan aukasett til vara. Hér á deildinni er svolítið af ungbarnafatnaði, en hann er kominn til ára sinna svo margir foreldrar kjósa að hafa barnið í sínum eigin fötum allan tímann á deildinni. Ungbarnableyjur og þvottasvampar/grisjur eru á staðnum.
Ef þú hefur einhverjar sérstakar óskir fyrir fæðinguna er sjálfsagt að gera óskalista og hafa hann meðferðis.
Nær allir hafa símana líka meðferðis, bæði til að taka myndir og leyfa fólkinu sínu að fylgjast með. Þá er gott að muna að fæðing barns er stutt stund sem ekki kemur aftur. Vilji foreldrar njóta augnabliksins um stund með nýfædda barninu sínu þá er möguleiki að bíða smá stund með að taka upp símann. Fólkið heima verður eðlilega spennt og þá vill koma fyrir að síminn stoppi ekki. Um það bil tveimur tímum eftir fæðingu er barnið oftast búið að eiga góða stund með foreldrunum, fyrsta brjóstagjöf um garð gengin og foreldrar farnir að slaka á inni á sængurlegustofu með sofandi barni. Þá gefst oft góður tími til að lýsa lita kraftaverkinu fyrir vinum og fjölskyldu.
Uppfært 14. desember 2021 (Björn Snorri)