Stjórn Vestfjarðadeildar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (VFÍH) mótmælir harðlega þeim mikla og ómarkvissa niðurskurði á heilbrigðisstofnunum sem boðaður er í frumvarpi til fjárlaga 2011.
Samkvæmt heilbrigðislögum eiga allir þegnar landsins að hafa jafnan rétt og jafnt aðgengi til heilbrigðisþjónustu, sem stuðlar að andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði.
Viljum við hjúkrunarfræðingar Vestfjarðadeildar vara við þeim alvarlegu afleiðingum sem fyrirhugaður niðurskurður mun hafa í för með sér fyrir íbúa svæðisins sem þurfa á þjónustu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða að halda.
Þær samfélagslegu breytingar sem myndu fylgja í kjölfarið á þeim niðurskurði sem boðaður er í heilbrigðisþjónustunni mun valda brottflutningi fólks af svæðinu.
Jafnframt er það skoðun okkar hjúkrunarfræðinga Vestfjarðadeildar að sparnaður verði enginn þegar upp er staðið. Því ekki er gert ráð fyrir öllum þeim kostnaði sem felst í flutningi sjúklings til Reykjavíkur eða Akureyrar og þeim kosnaði sem meðferð þeirra er á þessum stöðum. Ekki má gleyma heimilinum sem þurfa að taka á sig aukinn kostnað við að leita sér heilbrigðisþjónustu fyrir utan sína heimabyggð, svo sem ferðakostnaður, uppihald og vinnutap.
Því teljum við að fyrirhugaður niðurskurður og þeim breytingum á sviði heilbrigðismála muni tefla öryggi og jafnvel lífi fólks í hættu.
Fyrir hönd stjórnar Vestfjarðadeildar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
Jóhanna Oddsdóttir formaður
Höf.:ÞÓ