Geðheilsuteymi Vestfjarða tók aftur til starfa þann 1. apríl 2020 eftir nokkurra mánaða hlé en þann dag tók Thelma Björk Guðmundsdóttir við stöðu verkefnastjóra teymisins. Thelma Björk útskrifaðist með MA til starfsréttinda í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands sumarið 2015. Frá útskrift starfaði Thelma bæði sem málastjóri á Laugarásnum, meðferðar- og endurhæfingargeðdeild innan Landspítala fyrir ungt fólk með byrjandi geðrofssjúkdóma og einnig sem félagsráðgjafi Kvennaathvarfsins.
Sem stendur er Thelma Björk eini meðlimur teymisins sem er fastráðinn á Hvest. Helena Jónsdóttir sálfræðingur er í verktöku og hefur tekið að sér skjólstæðinga í gegnum geðheilsuteymið og nú í ágúst bættist sálfræðingurinn Sigrún Þóra Sveinsdóttir við hópinn en hún sinnir fjargeðheilbrigðisþjónustu í verktöku sömuleiðis.
Draumastaðan væri að hafa þverfaglegt teymi á stofnunni sem kæmi saman að því að móta og veita skilvirka og góða geðheilbrigðisþjónustu. Áhersla er því lögð á að fastráða fleira fagfólk inn í teymið og fór á dögunum auglýsing í loftið: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/laus-storf-a-starfatorgi/laust-starf/2020/09/15/Malastjori-i-gedheilsuteymi/.
Óhætt er að segja að á ýmsu hafi gengið frá því teymið tók aftur til starfa en fyrsta tilfelli Covid-19 greindist á Vestfjörðum á sama tíma og eðlilega höfðu þau höft sem Covid fylgdu áhrif á starfsemina. Biðlistinn eftir þjónustu teymisins var langur og margir sem óskuðu eftir að komast í þjónustu eða höfðu verið í þjónustu og óskuðu eftir áframhaldi. Í fyrstu var áhersla lögð á að heyra í öllum eins og hægt var, taka stöðuna og ákveða framhaldið.
Þar sem ekki var í boði að boða fólk í viðtöl á heilsugæslunni fóru fyrstu viðtöl fram í gegnum Kara Connect sem er örugg leið, vottuð af Landlækni til að bjóða upp á fjarviðtöl. Um miðjan maí var svo loks hægt að boða skjólstæðinga í viðtöl á heilsugæslunni. Vel hefur gengið og er þjónusta geðheilsuteymisins vel nýtt.
Geðheilsuteyminu er ætlað að sinna öllum landsfjórðungnum og er stefnt á að Thelma Björk fari í vettvangsferð 24. og 25. september næstkomandi til að kynna starfsemina enn frekar og koma á tengslum við bæði heilbrigðisstarfsfólk og skjólstæðinga á sunnanverðum Vestfjörðum. Hægt er að bóka viðtalstíma á heilsugæslunni á Patreksfirði í síma 450-2000, fá nánari upplýsingar um þá þjónustu sem í boði er og koma í kjölfarið í samtalsmeðferð ef þörf er á. Regluleg viðtöl verða í boði í framhaldinu, bæði á staðnum á meðan veður leyfir og þess á milli með fjargeðheilbrigðisþjónustu.
Nánari upplýsingar um geðheilsuteymið má finna hér en vert er að taka fram að þjónusta teymisins er skjólstæðingum að kostnaðarlausu.
Ef upp koma spurningar eða ef frekari upplýsinga er óskað má hafa samband við Thelmu Björk á netfangið thelma@hvest.is eða í síma 450-4500.
Höf.:SLG