A A A

Starfsfélagar kveðja

11.12 2009 | Svavar Þór Guðmundsson
Þann 10. desember kvaddi starfsfólk stofnunarinnar fjórar heiðurskonur en samanlagður starfsaldur þeirra við stofnunina og forvera hennar er samtals 153 ár!


 Þetta eru Ásthildur Ólafsdóttir læknaritari, Guðrún Guðmundsdóttir aðstoðarkona í iðjuþjálfun, Helga Sigurgeirsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur og Ingibjörg Sigurlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur.
Ásthildur hóf störf sem ritari á Heilsuverndarstöðinni í Vinnuveri 1982,  en hóf störf við Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði þegar það flutti í núverandi húsnæði þar sem hún hefur unnið síðan.
Guðrún byrjaði í eldhúsi gamla sjúkrahússins 1957, varð síðan gangastúlka, vann við símavörslu og hefur nú undanfarin ár verið aðstoðarmanneskja í iðjuþjálfun. Heyrst hefur að hún muni jafnvel halda áfram að koma og spila á gítar fyrir gamla fólkið svona til að halda stuðinu uppi.
Helga byrjaði 15 ára að vinna á sjúkrahúsinu. Þetta var árið 1955 og eins og hún segir sjálf þá var hún úti að sippa og konan á móti vorkenndi henni eitthvað að hafa ekki vinnu og sagði henni að mæta næsta morgun í eldhúsið á gamla sjúkrahúsinu. Árið 1962 útskrifast hún sem hjúkrunarkona og hefur störf hér sem slík 2. nóvember sama ár og hefur unnið hér alla tíð síðan - að vísu ekki sem hjúkrunarkona heldur hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri  Skurðdeildar.
Ingibjörg hóf störf á gamla sjúkrahúsinu árið 1963 fyrst sem gangastúlka en síðan hjúkrunarkona sem er hjúkrunarfræðingur í dag. Síðustu árin vann hún á bráðadeild sjúkrahússins.
Þegar tekið er tillit til þess að þessum konum var leyft að skreppa í fæðingarorlof auk annarra "skreppa" á aðrar vígstöðvar, situr eftir að samanlagður vinnutími þeirra við Fjórðungssjúkrahús og Heilbrigðisstofnunina Ísafjarðarbæ, síðar Vestfjarða, er 153 ár. Til að setja slíkan árafjölda í eitthvað samhengi má nefna að í sögu heilbrigðisþjónustu á Ísafirði er sagt að læknir hafi fyrst verið settur  árið 1845 og síðan eru 164 ár.  Þannig að  starfsaldur þeirra slagar í að vera jafnlangur sögu  læknisþjónustu á Ísafirði.
 Starfsfólk stofnunarinnar þakkar þeim fyrir samstarfið og samveruna og kveður þær með virðingu og þakklæti.
Vefumsjón