Kynntar hafa verið skipulagsbreytingar á starfsstöð Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Patreksfirði. Breytingarnar fela í sér styrkingu á stjórnun stofnunarinnar og hafa það markmið að tryggja stuðning við starfsfólk og auka slagkraft til gæðastarfs og umbóta. Þá felast í breytingunum bæði áhersla á aukið sjálfstæði starfsstöðvarinnar en á sama tíma betri samþættingu við stofnunina í heild.

Á Patreksfirði er sjúkrahús með 2 sjúkrarýmum og 11 hjúkrunarrýmum, heilsugæslustöð, endurhæfingarstöð og sjúkraflutningar. Starfsemin sameinaðist í Heilbrigðisstofnun Vestfjarða árið 2014.

Ný rekstrarstjórn

Ný rekstrarstjórn verður til í breytingunum. Hjúkrunarstjóri, sem hingað til hefur verið helsti stjórnandi starfsstöðvarinnar, verður formaður rekstrarstjórnar. Í henni sitja þrír aðrir stjórnendur; deildarstjóri legudeildar, rekstrarstjóri og verkefnastjóri heilsugæslu.

Deildarstjóri legudeildar og verkefnastjóri heilsugæslu munu verða mannaðar hjúkrunarfræðingum sem færast til í starfi. Staða deildarstjóra rekstrar er ný, þar sem undir falla ræsting, þvottar, eldhús, ritarar og umsjón með innkaupum og fasteignum.

Hjúkrunarstjóri er fulltrúi starfsstöðvarinnar í framkvæmdastjórn stofnunarinnar í heild. Aðrir meðlimir í framkvæmdastjórn hafa seturétt á fundum rekstrarstjórnar, en að öðru leyti er rekstrarstjórninni ætlað að vera sjálfstæð og sinna öllum daglegum rekstri.

Deildarstjórarnir tveir munu nú sitja hálfsmánaðarlega fundi stjórnenda allrar stofnunarinnar. Hingað til hefur einungis einn fulltrúi frá Patreksfirði setið ýmsa fundi stjórnenda og samþættist starfsemin því enn frekar með þessum breytingum.

Breytingar til batnaðar

Í ár var Heilbrigðisstofnun Vestfjarða sú stóra stofnun sem hækkaði mest milli ára í könnuninni um stofnun ársins. Er stofnunin nú meðal hæstu heilbrigðisstofnananna. Sérstaklega hækkaði stofnunin þegar kom að stjórnun, starfsanda, ímynd stofnunar, ánægju og stolti.

Skipulagsbreytingarnar eru liður í stærra verkefni sem snýr einmitt að eflingu stjórnunar. Þessi áhersla á hliðstæður bæði í nýrri stjórnendastefnu ríkisins og heilbrigðisstefnu til 2030. Með því er stefnt að auknum gæðum fyrir skjólstæðinga, bættum starfsaðstæðum og slagkrafti til stöðugra umbóta.

Tvær auglýsingar

Birtar hafa verið úr tvær starfsauglýsingar. Annars vegar verður auglýst staða rekstrarstjóra og hins vegar staða almenns hjúkrunarfræðings sem sinna mun störfum á legudeild og heilsugæslu. Auglýsingarnar er að finna á Starfatorgi.


Rekstrarstjórn á Patreksfirði skv. nýju skipuriti

Höf.:GÓ