Nú í október hófst gjöf Nirsevimab (Beyfortus®), mótefni gegn RS vírus til allra ungbarna undir sex mánaða aldri hér á landi (börn fædd frá og með 1. maí 2025). Mótefnið er einnig í boði fyrir þau börn á aldrinum 6-24 mánaða sem eru í eftirliti hjá sérfræðilæknum Barnaspítala Hringsins og í aukinni hættu á alvarlegum veikindum vegna RS veirusýkingar.

Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á almenna forvörn gegn RS-veirusýkingum fyrir öll ungbörn á Íslandi.

Af hverju skiptir þetta máli?

RS-veiran er algeng orsök öndunarfærasýkinga, sem leggst sérstaklega þungt á börn á fyrsta aldursári, og veldur árlega fjölda innlagna á sjúkrahús hérlendis og erlendis. Í alvarlegum tilvikum þurfa börn að leggjast inn á gjörgæslu og fá öndunarvélarstuðning.

Á síðustu árum hefur innlögnum barna á fyrsta aldursári fjölgað hér á landi og hvert ár koma upp tilfelli þar sem börn veikjast mjög alvarlega. RS-sýkingar geta einnig leitt til bakteríusýkinga eins og lungnabólgu sem krefst sýklalyfjameðferðar.

Til að ná sem mestum árangri þarf þátttöku sem flestra ungbarna undir sex mánaða aldri við upphaf RS-tímabils. Þar sem mótefnið veitir einstaklingsbundna vörn, en ekki hjarðónæmi, skiptir þátttaka hvers barns miklu máli.

Tilhögun á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða:

Börn sem fæðast á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða: Fá boð um forvörn við útskrift.

Ísafjörður og nágrenni: Börn fædd eftir 1. maí 2025 fá boð um forvörn í hefðibundnu ungbarnaeftirliti í október og nóvember.

Patreksfjörður og nágrenni: Haft verður samband við foreldra barna fædd eftir 1. maí 2025.

Þeir foreldrar barna sem fædd eru eftir 1. maí 2025 og eru ekki í hefðbundnu ungbarnaeftirliti í október eða nóvember og fá ekki símhringingu frá heilsugæslunni er bent á að hafa samband á sína heilsugæslustöð.