Nú er allt undirlagt á 1. hæð vesturálmu sjúkrahússins enda eru iðnaðarmenn að leggja lokahönd á röntgenrými sjúkrahússins.

Ljóst er að aðstaðan verður öll hin glæsilegasta en gjörbylta þurfti aðstöðu geislafræðings og skoðunarherbergi lækna til að hægt væri að koma sneiðmyndatækinu fyrir.

Í gær, mánudag, var tækið svo flutt úr kjallara hússins upp á fyrstu hæð en það er ekki hlaupið að því þar sem tækið vegur um tvö tonn og fyrirferðarmikið á alla kanta. Létu menn hendur því standa fram úr ermum og tókst að koma öllu á sinn stað á undraskömmum tíma.

Ekki er komin nákvæm tímasetning á verklok en gera þarf ráð fyrir allt að tveimur vikum áður en hægt verður að nota tækið þar sem endanleg uppsetning og stilling þess er eftir en það er mikil nákvæmnisvinna sem krefst góðs tíma og næðis.


Höf.:SÞG