A A A

Rannsˇknadeild

Rannsóknadeild Heilbrigðisstofnunarinnar þjónar íbúum Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkur og Súðavíkur. Á rannsóknadeild eru framkvæmdar allar algengustu blóðmeina– og meinefnafræðimælingar. Auk þess eru gerðar hormónamælingar, þvagrannsóknir, og sýklaræktanir.

Hvað gerist þegar þú ferð í blóðprufu ?

 1. Læknir þinn leggur inn beiðni um blóðprufu.
 2. Þú kemur í blóðprufu á rannsóknadeild. Blóðtökutímar eru á morgnana kl. 8 til 9.30.

  • ATH. Ef mæla á blóðsykur og/eða blóðfitur þarftu að koma fastandi að morgni til blóðsýnatökunnar.
 3. Blóðsýnin eru tekin í mismunandi glös – allt eftir því hvað á að mæla.
 4. Við gerum allar algengustu rannsóknir daglega, en hormónamælingar eru gerðar á mánudögum og þriðjudögum.
 5. Ef senda þarf blóðsýni til mælinga á rannsóknastofu LSH, tekur allt að viku að fá niðurstöðurnar til baka með pósti.
 6. Þegar niðurstöður okkar mælinga liggja fyrir, færum við þær í tölvukerfið og sendum lækni þínum. Hann hefur þá samband við þig (eða þú við hann) til að ræða niðurstöðurnar.
 7. Sé grunur um þvagfærasýkingu skal einnig hafa samband við lækni sem þá útbýr beiðni.
 8. Bestu þvagsýnin eru miðbunu-morgunþvag, sem koma þarf sem fyrst á rannsóknastofuna.

  • ATH. Ef geyma þarf sýnið í smá tíma þá er nauðsynlegt að setja það í ísskáp.

Mælingar á þeim fjöldamörgu efnum sem finnast í blóði gefa mikilvægar upplýsingar um líkamlegt ástand viðkomandi.
Ástæður þess að fólk kemur í blóðprufu eru t.d.:

 • Veikindi ýmisskonar
 • Eftirlit með áhrifum lyfja á nýru og lifur
 • Blóðsykurmælingar hjá sykursýkissjúklingum,
 • Blóðfitumælingar hjá þeim sem taka blóðfitulækkandi lyf
 • Blóðþynningarmælingar hjá þeim sem taka blóðþynningarlyf
 • Fyrir aðgerð þarf að athuga t.d. blóðmagn og blóðflokk

 

Leibeiningar fyrir þvagsýnatöku

Rétt miðbunuþvagtaka
Tilgangur með rannsóknum á þvagsýnum er að kanna ástand nýrna og finna hugsanlega sýkingu í þvagfærum. Til að rannsóknin verði sem áreiðanlegust verður þvagsýnið að vera rétt tekið og án utanaðkomandi baktería. Allt of algengt er að þvagsýni séu menguð af húð- og þarmabakteríum sem trufla rétta útkomu. Þetta hefur í för með sér óþarfa útgjöld og meiri fyrirhöfn og jafnvel töf á markvissri lyfjameðferð.

Vegna mikils bakteríugróðurs á svæðinu í kringum endaþarm og þvag- og kynfæri er nauðsynlegt að þvo vel þetta svæði fyrir sýnatökuna. Rétt framkvæmdur neðanþvottur er nægjanlegur.

Aðferð:

 1. Nákvæmur neðanþvottur úr mildu sápuvatni:
  • Konur athugi að þvo vel milli skapabarma og strjúka alltaf framan frá og aftur
  • Karlar þvoi vel undir forhúð
 2. Kastið þvagi og látið fyrstu bunu fara í salerni, miðbunu í þvagílátið og bunulok í salernið.

 

Helstu rannsóknir

Helstu rannsóknir sem framkvæmdar eru á deildinni:

 • Blóðmeinafræði
 • Meinefnafræði
 • Hormónamælingar
 • Þvagrannsóknir
 • Blóðbankarannsóknir
 • Saurrannsóknir
 • Sýklaræktanir
 • Blóðgasmælingar

Aðrar rannsóknir eru sendar á rannsóknastofu Landspítala/Háskólasjúkrahúss.

 

Tækjakostur og þjónusta

Deildin er vel tækjum búin. Meðal helstu tækja mætti nefna Space (til meinefnafræðirannsókna), blóðmeinafræðitæki, hormónatæki, blóðbankatæki, blóðgasmælir, langtímasykurmælir, þvagstrimlalesari, Olympus smásjá, elektrólitramælir og MSE skilvinda.

Á deildinni vinna þrír lífeindafræðingar. Blóðtökutímar eru frá klukkan 8–9.30 daglega. Vakt er allan sólarhringinn alla daga og bráðatilfellum sinnt.

Rannsóknadeildin er með innra og ytra gæðaeftirlit með rannsóknunum. Gott samstarf er við rannsóknadeildir Landspítala Háskólasjúkrahúss og Blóðbankann.

 

Tenglar

Vefumsjˇn