A A A

Saga heilbrig­is■jˇnustu ß ═safir­i

 

Forsaga

Andreas Peter Jensen sat fyrstur lækna á Ísafirði, frá 1845 til 1846. Þrír fyrstu læknar Ísfirðinga voru reyndar danskir, en hinir voru J. P. Weywadt og C. J. Clausen. Hjúkrun fór þá að mestu fram í heimahúsum, en á Ísafirði var Kristín Ásgeirsdóttir (1827-1896) þekktust fyrir þá iðju. Hún bjó að Brunngötu 14 þar sem hún kom upp tveimur sjúkrarúmum, sem ef til vill mætti kalla vísir að fyrsta sjúkrahúsi á Ísafirði.

 

Sjúkrahús í Mánagötu

Elliheimilið að Mánagötu 5Húsið að Mánagötu 1 var selt Hannesi Hafstein, þá bæjarfógeta, með hagnaði og byggt var nýtt hús sem betur gat gegnt hlutverki sjúkrahúss að Mánagötu 5. Styr stóð um byggingu nýja hússins, en fremst í flokki andmælenda stóðu pennar eina blaðs bæjarins, Þjóðviljans unga. Þeir töldu allt of mikið lagt í húsið og fundu því allt til foráttu - kölluðu það meðal annars „spítala húmbúgið“ og fleiri miður fallegum nöfnum, meira að segja eftir byggingu þess þegar það hafði margsannað gildi sitt. Elliheimilið að Mánagötu 5.
Vilmundur Jónsson læknir var helsti hvatamaður að byggingu sjúkrahússins á Eyrartúninu og hreyfði hann því máli strax eftir að hann varð héraðslæknir árið 1917. Árið 1919 hóf bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar undirbúning að byggingu sjúkrahússins. Húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelson, teiknaði húsið og skilaði þar að auki metnaðarfullum tillögum að nánasta umhverfi þess. Við staðarvalið var haft í huga að sjúkrahúsið þurfti að standa á rólegum og kyrrlátum stað, utan mesta annasvæðis í bænum, en jafnframt varð að gæta þess, að aðgangur að því væri greiður. Þegar þetta tvennt var haft í huga og einnig, að byggingarlóðir lágu ekki á lausu á eyrinni, kom varla annar staður til greina en Eyrartún.

Það þótti bera vitni um stórhug og jafnvel dirfsku að reisa svo stórt sjúkrahús á þessum tíma. Eftir því sem tímar liðu kom í ljós að byggt var af framsýni og raunsæi. Sjúkrahúsið þjónaði Ísfirðingum, Vestfirðingum og stórum hópi íslenskra og erlendra sjómanna allt fram til ársins 1989. Strax á sjöunda áratugnum var engu að síður bent á að gamla sjúkrahúsið væri of lítið og stæðist ekki kröfur samtímans, enda var þá liðin nær hálf öld frá byggingu þess. Árið 1987 samþykkti bæjarstjórn að húsið yrði nýtt fyrir starfsemi bóka-, skjala- og listasafns, en húsið var vígt til þeirra nota með mikilli athöfn 17. júní árið 2003.

 

Sjúkrahúsið að Torfnesi

Hinn 16. september 1975 tók Matthías Bjarnason, þáverandi heilbrigðisráðherra, fyrstu skóflustunguna að þeirri byggingu sem nú hýsir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Arkitekt sjúkrahússins er Jes Einar Þorsteinsson. Áætlaður verktími var sex ár, en töluvert teygðist úr því. Árið 1995, tuttugu árum eftir fyrstu skóflustunguna, sást loks hilla undir verklok. Árinu áður hafði þó verið ráðist í umsvifamiklar viðgerðir á húsinu sem kláruðust fyrst árið 1997.Húsið var hægt og bítandi tekið í notkun. Heilsugæslustöðin flutti fyrst inn í janúar 1983, röntgendeildin flutti inn í október sama ár og tannlæknar mánuði síðar. Rannsóknarstofan flutti svo í núverandi aðsetur í ársbyrjun 1984 og endurhæfingardeildin fáum mánuðum síðarÍ mars 1989 flutti starfsemi Fjórðungssjúkrahússins alfarið úr gamla húsinu í nýju bygginguna. Á þeim tíma var lokið við frágang fyrri legudeildarinnar, en gert var ráð fyrir tveimur í allt. Verklegum framkvæmdum við síðari legudeildina lauk í apríl 1994, en hún var síðan opnuð að fullu 30. apríl árið 1995.

Árið 1995 urðu hörmulegir atburðir í Súðavík og á Flateyri þegar snjóflóð féllu með miklu manntjóni. Þá sannaðist með áþreifanlegum hætti mikilvægi þess að hafa vel búna heilbrigðisstofnun á svæðinu með þjálfuðu og dugmiklu starfsfólki. Framlag lækna stofnunarinnar, hjúkrunarfólks og annarra starfsmanna við þessar kringumstæður vakti mikla athygli á landsvísu og má að ósekju kalla þrekvirki.

 

Starfsemi FSÍ

Hægt er að lesa um framtíðarhorfur sjúkrahússins í stefnumótun HSÍ.

 

Heimildir

Textinn er að hluta unninn upp úr söguyfirliti Guðjón S. Brjánsson, fyrrum framkvæmdastjóra Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði.

Aðrar heimildir:

Ársskýrslur sjúkrahússins.

Vilmundur Jónsson. Sjúkrahús og sjúkraskýli á Íslandi í hundrað ár. Ísafoldarprentsmiða hf. Reykjavík, 1970.

Jóhann Gunnar Ólafsson. „Sjúkrahús á Ísafirði“. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1965. Sögufélaga Ísfirðinga. Ísafirði, 1996.

Jón Þ. Þór. Saga Ísafjarðar og Eyrarhrepps hins forna, IV. bindi 1921-1945. Sögufélag Ísfirðinga Ísafirði, 1990.

Jón Grímsson. „Ísafjörður fyrir 60 árum“. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1956. Prentstofan Ísrún h.f. Ísafirði, 1956.

Vefumsjˇn