A A A

Saga HeilsugŠslunnar ß Ůingeyri

Fjarðarstræti 8

Fyrsta sjúkrahús Vestur-Ísafjarðarsýslu reis á Þingeyri árið 1909. Það var sjúkraskýli sem rúmaði átta sjúklinga. Þannig var að Bretar voru mikið við veiðar undan ströndum Vestfjarða og komu gjarnan með skip sín til viðgerða á Þingeyri og veika menn og slasaða til lækninga. Þeir styrktu því byggingu sjúkraskýlisins með 2600 krónum, en Vestur-Ísafjarðarsýsla styrkti verkefnið í framhaldi af því um 3000 kr. Húsið var notað undir sjúkraskýlið fram til ársins 1949, en var þá selt sem íbúðarhús. Því hlutverki gegnir það enn og stendur nú að Fjarðarstræti 8.

[mynd 1 v]Gunnlaugur Þorsteinsson læknir fylgdi sjúkraskýlinu nærri alla þess tíð, fyrst sem staðgæslumaður héraðslæknis (1909-1911), en eftir það sem héraðslæknir. Það fylgir sögunni að Bretar hafi haldið uppi rekstri sjúkraskýlisins með tíðum heimsóknum fyrir stríð og á stríðsárunum. Sögur segja enda að þeir hafi verið látnir greiða margfalt verð fyrir læknisaðstoðina.

Aðalstræti 26

Árið 1949 var fullgerður héraðslæknisbústaður skammt frá gamla sjúkraskýlinu, þangað sem heilsugæsla Þingeyringa flutti, en rekstur sjúkrahúss var lagður niður með flutningnum. Lækni var ætlað að reka sjúkraskýlið ásamt eigin heimili, því ekki þótti lengur grundvöllur fyrir rekstri stærri sjúkrahúss í héraðinu. Húsið var stækkað árið 1956 og gert ráð fyrir ráðskonu, byggt eldhús auk sameiginlegrar vistarveru fyrir ráðskonu og sjúklinga. Nú er þar rekið gistihús.

Vallargata 7

Árið 1984 var ráðist í miklar byggingaframkvæmdir við Vallargötu 7, þar sem 15 árum síðar stóð fullkomin heilsugæsla og öldrunarheimili. Mikið var enda um dýrðir þegar Ingibjörg Pálmadóttir, þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, vígði þetta 1.230 fermetra hús árið 1999. Þar er aðstaða fyrir lækni og hjúkrunarkonu, sjúkraþjálfun auk tannlæknaaðstöðu. Öldrunarheimilið Tjörn er með alla sína starfsemi þar með bókasafni, bókbindiaðstöðu og snyrtiaðstöðu fyrir vistmenn, kapellu og möguleika á ýmis konar afþreyingu.

Heimildir

Nanna Magnúsdóttir og Jónas Ólafsson - Aðalstræti 11, Þingeyri.

Vilmundur Jónsson. Sjúkrahús og sjúkraskýli á Íslandi í hundrað ár. Ísafoldarprentsmiða hf. Reykjavík, 1970.

Lárus H. Blöndal og Vilmundur Jónsson. Læknar á Íslandi. 2. útg. Læknafélag Íslands. Reykjavík, 1970. - 2 b.
Vefumsjˇn