A A A

Saga Heilsugćslunnar á Flateyri

[mynd 1 v]Frá því að byggðakjarni myndaðist á Flateyri um miðja 19. öld og eftir að hvalveiðistöð Ellefsens hóf þar vinnslu myndaðist þörf fyrir lækni, en áður höfðu yfirsetukonur verið í sveitinni. María Össurardóttir, sem bjó á býlinu Eyri, var oft kölluð til þegar veikindi voru, enda hafði hún lesið sér til um læknisfræði. Hún hafði auk þess oft sjúklinga til umönnunar á heimili sínu. Í dag er til sjóður sem ber nafn hennar, Minningasjóður Maríu Össurardóttur, og hafa bæði Heilsugæslan og Öldrunarheimilið Sólborg notið góðs af honum.

Upphaf heilsugæslu

Sjálfstætt læknisumdæmi er ekki stofnað á Flateyri fyrr en árið 1910, en fram að því þjónuðu Önfirðingum læknar sem staðsettir voru á Þingeyri eða Ísafirði. Læknir var með fasta búsetu á Flateyri og oft sinnti hann einnig Súgandafirði. Um tíma var læknisbústaðurinn að Hafnarstræti 1, sem er stórt þriggja hæða hús á Flateyri. Þar voru gerðar aðgerðir og þar lágu þeir sjúklingar sem þurftu að ná sér.

Árið 1944 var byggt húsið að Eyrarvegi 8, sem var bæði læknisbústaður og skýli, þ.e. sjúkrastofur ásamt lyfsölu og móttöku læknis. Allar konur á Flateyri fæddu börn sín á skýlinu og lágu þar sængurlegu. Sjúklingar lágu þar einnig. Á skýlinu var starfandi ljósmóðir, læknir, starfstúlka og stundum einnig hjúkrunarkona og meinatæknir. Ýmis lækningatæki voru þar, bæði til skurðaðgerða og forvarna. Fóru sum skólabörn t.d. í ljós á skýlið og einnig var til hitakassi fyrir nýbura strax árið 1970.

Flutningar

Í kringum 1978 var aðsetur læknis flutt í næsta hús og Öldrunarstofnun Önfirðinga sett á laggirnar á efri hæð hússins þar sem hafði verið læknisbústaður. Heilsugæslustöðin fékk þá alla neðri hæðina, en þó kom fyrir að læknir lagði inn sjúklinga á efri hæðina í eftirlit. Árið 1993 var nafni öldrunarstofnunarinnar breytt í Öldrunarheimilið Sólborg eftir nafnasamkeppni sem haldin var meðal íbúa á Flateyri.

Á Öldrunarheimilinu eru rúm fyrir sex skjólstæðinga á einbýlum, en stundum hefur verið margt um manninn og þá verið allt upp í átta sjúklingar. Í upphafi voru tvær starfsstúlkur sem unnu frá kl. 8 á morgnana til kl. 20 á kvöldin. Nú er unnið á þrískiptum vöktum, og því alltaf starfsmaður til staðar.

Ný sólstofa

Guðmundur Valgeir Jóhannesson, sem bjó síðustu ár sín á Sólborg, lét byggja svalir út úr stofunni svo íbúarnir ættu auðveldara með að viðra sig, en oft var næðingur á svölunum. Í dag er þetta björt og góð viðbót við stofuna. Lagði hann sjálfur peninga í verkið í minningu konu sinnar og leitaði einnig til félagasamtaka og Sparisjóðs Önundarfjarðar um styrki. Sólstofan var vígð 1. desember 1998 við fjölmenni gesta og velunnara heimilisins.
Vefumsjón