A A A

SkˇlaheilsugŠsla

Skólaheilsugæslan sem heyrir undir Heilbrigðisstofnun Ísafjarðarbæjar tekur yfir fimm grunnskóla; á Ísafirði, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri og Súðavík. Nemendur eru alls vel á áttunda hundruð og skiptast þannig:

  • Grunnskólinn á Ísafirði: ~420 nemendur
  • Grunnskólinn á Suðureyri: 56 nemendur
  • Grunnskólinn á Súðavík: 32 nemendur
  • Grunnskólinn á Flateyri: 40-50 nemendur
  • Grunnskólinn á Þingeyri: 50-60 nemendur

Skólahjúkrunarfræðingur hefur fasta viðveru í Grunnskólanum á Ísafirði þar sem hann er með skrifstofu. Starfið nær yfir afar breitt svið, en þar mætti nefna vandamál tengd líkamlegum, geðrænum og sálfélagslegum þroska barna, algengum sjúkdómum, skyndihjálp á börnum og unglingum, streitu og áfallahjálp, smitnæmum sjúkdómum, lyfjum fyrir börn og unglinga, einkennum átraskana, þroska- og hegðun og seinkuðum greindarþroska. Auk þess fellur einelti og stríðni, misnotkun og vanræksla, þungun unglingsstúlkna, reykingar, vímuefnaneysla og ofbeldi einnig að hluta undir starfssvið skólahjúkrunarfræðings.

Eftirlit með heilsufari nemenda

6 ára
1. bekkur
Líkamsþroski — hæð og þyngd.
Heyrnarmæling.
Foreldrum sent spurningablað varðandi heilsufar
barnsins.
(Læknisskoðun og viðtöl við foreldra. Bólusetning,
kíghósti, barnaveiki, stífkrampi (Di-Te-Kik) hjá þeim
börnum sem ekki komu í fimm ára skoðun).
7 ára
2. bekkur
Líkamsþroski — hæð og þyngd.
Sjónpróf.
9 ára
4. bekkur
Líkamsþroski—hæð og þyngd.
Sjónpróf.
Læknisskoðun.
11 ára
6. bekkur
Líkamsþroski — hæð og þyngd.
12 ára
7. bekkur
Líkamsþroski — hæð og þyngd.
Sjónpróf, litaskyn.
Læknisskoðun.
Bólusetning: Mislingar, hettusótt, rauðir hundar (MMR).
13 ára
8. bekkur
Líkamsþroski — hæð og þyngd.
14 ára
9. bekkur
Líkamsþroski — hæð og þyngd.
Bólusetning: Mænusótt, stífkrampi ásamt barnaveiki (Polio).
15 ára
10. bekkur
Líkamsþroski — hæð og þyngd.
Sjónpróf og heyrnarmæling.
Læknisskoðun.

 

Dagleg störf

Mikilvægasti þáttur starfsins er að vera til staðar fyrir börnin þegar þau þarfnast þess, en auk þess eru fastir liðir á hverjum degi, s.s. lyfjagjöf og fleira. Í vetur (2003-2004) þarfnast þrjú börn lyfjagjafar daglega, en skólahjúkrunarfræðingurinn sér um það.

Skólaskoðanir

Öll börn eru hæðar- og þyngdarmæld árlega, en það er misjafnt hvað gert er hjá hverjum árgangi. Sjónskoðun fer fram árlega hjá öllum bekkjardeildum, nema hjá nemendum í 3. 5. og 8. bekk. Skólahjúkrunarfræðingur sér einnig um bólusetningar fyrir börn á skólaaldri og fylgist með því að öll börn séu rétt bólusett.

Fræðsla

Skólahjúkrunarfræðingur sér um fræðslu í skólanum sem fer fram á skólatíma barnanna. Einstaklingsfræðsla er stór hluti af fræðslunni, en einnig fer hún fram í hópum, t.d. kynfræðsla (getnaðarvarnir og kynsjúkdómar), kynþroskafræðsla, fræðsla um reykingar, tannfræðsla, blæðingarfræðsla, fræðsla um mataræði, svefn og hreyfingu og önnur tilfallandi fræðsla.

Flúor

Fluorskolun fyrir 6, 12 og 15 ára börn er framkvæmd tvisvar í mánuði. Meðan á fluorskolun stendur fá nemendur fræðslu, t.d. um notkun endurskinsmerkis, mikilvægi morgunverðar, tannhirðu, mikilvægi þess að klæða sig vel og fleira þess háttar.

Skólahjúkrunarfræðingur Grunnskóla Ísafjarðar sér einnig um Grunnskólann á Suðureyri og Grunnskólann í Súðavík. Þar er skólaskoðað og veitt fræðsla eftir þörfum. Hjúkrunarfræðingur Heilsugæslu Flateyrar sér um skólahjúkrun á Flateyri og Þingeyri.

Lyfjagjöf

Lyfjagjafir á skólatíma eru í höndum skólahjúkrunarfræðings. Foreldrar eru beðnir um að snúa sér til hjúkrunarfræðingsins ef um slíkt er að ræða.

Svefn og hvíld

Að gefnu tilefni viljum við benda foreldrum og forráðamönnum barna á hve mikilvægt er að skólabörn fái nægan svefn og hvíld. Séu þau ekki útsofin og hvíld geta þau ekki notið kennslunnar né sinnt því starfi sem fram fer í skólanum. Þau verða þreytt og pirruð, þola illa langa setu á skólabekk og námsefnið fer fyrir ofan garð og neðan. Hæfilegur svefn- og hvíldartími er talinn vera 8-12 klst. og þurfa yngstu skólabörnin undantekningalítið 12 klst. svefn til að ná fullri hvíld.

Hollur og góður matur

Góð næring hefur mikið að segja fyrir vöxt og þroska barna og hæfileika þeirra til að takast á við amstur dagsins. Börn þurfa þrjár máltíðir á dag auk síðdegishressingar og skiptir staðgóður morgunverður áður en lagt er af stað í skólann, miklu máli. Ef þau borða ekki áður en þau fara í skólann þá verða þau sljó og þróttlaus til líkamlegra og andlegra starfa.

Einnig er mjög mikilvægt að nestið sé hollt og þykir hæfilegt að koma með t.d. grófa samloku og ávöxt eða eitthvað álíka. Mjólk er seld í skólanum á lágu verði og er hægt að kaupa áskrift sem dugar hálfan veturinn. Mörg börn vilja ekki drekka mjólkina og ráðleggjum við þá foreldrum að hafa mjólk þrisvar sinnum í viku og svaladrykk hina dagana eða t.d. að nýta besta svaladrykkinn okkar, vatnið.

Höfuðlús

Að gefnu tilefni viljum við minna fólk á að vera vakandi gagnvart lúsinni þar sem hún er ekki útdauð og skýtur árlega upp kollinum í einhverjum skólum landsins, sérstaklega á haustin. Mikilvægt er að bregðast strax við ef grunur er um lús og láta hjúkrunarfræðing vita ef lús kemur upp í bekk því þá þarf að skoða allan bekkinn. Ef allir bera ábyrgð á sér og sínum getum við komið í veg fyrir óþarfa óþægindi og vinnu.

Annað

Skólahjúkrunarfræðingur Grunnskóla Ísafjarðar sinnir auk þessa fleiri tilfallandi störfum utan síns vinnutíma:

  • Nemendaverndarráðsfundir. Um það bil fjórar kl.st. á mánuði. Þar eru rædd ýmis mál sem koma upp með nemendur, hvort sem það er vegna námsörðugleika eða annars.
  • Vávest. Fundir 2-3 klukkustundir í mánuði. Ræddar eru vímuvarnaráætlanir á Ísafirði og hvað sé að gerast meðal ungmenna. Einnig eru ræddar leiðir til að koma í veg fyrir vímuefnaneyslu ungmenna.
  • Fræðsla fyrir foreldra nemenda í 1. og 10. bekk. Fræðslan fer fram á haustin fyrir foreldra í 1. bekk en fyrir samræmdu prófin í tilfelli foreldra barna í 10. bekk. Fræðslan fer fram á kvöldin.

Síminn hjá skólahjúkrunarfræðingi Grunnskóla Ísafjarðar er 450 3107 (bein lína), GSM 860 7447 eða 450-3100 (aðalnúmer skólans) og er foreldrum/forráðamönnum velkomið að hringja ef einhverjar spurningar vakna.

Viðvera skólahjúkrunarfræðings í Grunnskóla Ísafjarðar er milli kl. 8.00 – 13:00 alla virka daga.

Vefumsjˇn