A A A

Ëmun (sˇnar) ß me­g÷ngu

Sónarskoðun er framkvæmd a.m.k. einu sinni í meðgöngu. Hún er sársaukalaus fyrir konuna og þarfnast ekki undirbúnings nema meðgangan sé styttri en 12-14 vikur. Þá þarf konan að hafa fulla þvagblöðru til að lyfta leginu upp úr grindinni, sem auðveldar skoðunina.

Sónarskoðun er hættulaus fyrir móður og barn. Um er að ræða hljóðbylgjur af hárri tíðni, eða yfir 20.000 bylgjur á sek. = 20 kílóherts.

Hljóðbylgjur leiðast auðveldlega um vökva og vefi, en loft stöðvar þær. Bylgjurnar endurkastast frá vefjum og breytir kristallinn eða ómhausinn þá hljóði í mynd sem kemur fram á skermi ómunartækisins.

Hver er tilgangur fósturgreiningar á fyrstu 20 vikum meðgöngu?


 • Að meta meðgöngulengd, greina fleirburaþunganir og staðsetja fylgju
 • Að skoða líffæri, legvatn og atferli fóstursins m.t.t. þess að greina frávik frá hinu eðlilega

Hvað er nauðsynlegt að hafa í huga áður en ákvörðun um fósturgreiningu er tekin?

Ómskoðun og fósturgreining á þessum tíma er val verðandi foreldra. Flest börn fæðast heilbrigð, en það er þó ekki sjálfgefið. Í fáum tilfellum greinist minni- eða meiriháttar fósturgalli, sem getur valdið áhyggjum foreldra eða erfiðri ákvarðanatöku um framhald meðgöngunnar. Foreldrar sem
ekki geta hugsað sér að verða fyrir slíku ættu ekki að þiggja þessa skoðun.

Er hægt að útiloka alla fósturgalla með ómskoðun?

Nei, eðlileg niðurstaða úr ómskoðun gefur ekki fullvissu um að allt verði í lagi, þar sem ekki er hægt með ómtækninni að greina öll afbrigði frá hinu eðlilega.

Hvað gerist þegar fósturgalli finnst?

Ef grunur um fósturgalla vaknar er gerð ítarleg skoðun á fóstrinu til að fá sem nákvæmasta greiningu og leitað sérfræðiaðstoðar. Í vissum tilfellum er boðið upp á frekari rannsóknir, t.d. litningarannsókn, eða nákvæmari rannsókn á hjarta fósturs. Barnalæknar á vökudeild, barnaskurðlæknar, sérfræðingar í hjartasjúkdómum barna, lýtalæknar og sérfræðingar í erfðasjúkdómum eru til samstarfs ef á þarf að halda. Oftast er um vandamál að ræða sem jafnvel lagast af sjálfu sér eða hægt er að lækna með aðgerð eftir fæðingu. Í einstaka tilfellum finnast mjög alvarlegir fósturgallar þar sem barninu er ekki hugað líf eða búist er við mikilli andlegri og/eða líkamlegri fötlun þess. Þá standa foreldrar frammi fyrir því erfiða vali að halda áfram meðgöngunni eða ljúka henni. Hlutverk fagfólks er að veita foreldrum stuðning við þá ákvörðun sem þeir kunna að taka.

Hvað er ómun?

Við ómun eru notaðar hátíðni-hljóðbylgjur, sem gera okkur mögulegt að skyggnast inn í vefi líkamans. Svart - hvít sneiðmynd birtist á sjónvarpsskjá. Þéttir vefir (bein) birtast hvítir og vökvi (vatn) er svartur. Aðrir vefir koma fram í ýmsum gráum tónum. Ómtæknin gerir okkur kleift að skoða líffæri fóstursins, mæla stærð, meta blóðrás og fylgjast með hreyfingum þess. Ómskoðun er talin skaðlaus móður og fóstri. Engu að síður þarf að vanda vel til ábendinga um skoðunina. Ljósmæður og læknar sem hafa sérhæft sig í fósturgreiningu og ráðgjöf til foreldra framkvæma skoðunina.

Ómskoðun við 19-20 vikur

Tilgangur:
 • Að staðfesta meðgöngulengd og áætla fæðingadag
 • Að meta fjölda fóstra
 • Að staðsetja fylgju
 • Að skoða fóstrið með tilliti til sköpulags- og líffæraafbrigða
Aldur fóstursins er áætlaður með mælingum á höfði, lærlegg og upphandlegg og væntanlegur fæðingadagur er reiknaður út frá því. Aldursgreining á þessum tíma er nákvæm þar sem öll fóstur eru svipuð að stærð fyrstu 20 vikurnar.

Fylgjustaðsetning er athuguð og legvatnsmagn metið. Ef fylgja er lágsæt eða fyrirsæt er staðsetning hennar endurmetin síðar, oftast við 34 vikur. Fóstrið er skoðað nákvæmlega til að meta hvort einstök líffæri þess eru rétt sköpuð.

Á þessu stigi meðgöngu greinast í einstaka tilfellum alvarlegir sköpulagsgallar hjá fóstri eða minniháttar frávik frá hinu eðlilega. Sum afbrigði gefa tilefni til að bjóða foreldrum frekari rannsóknir eins og t.d. á hjarta, eða litningarannssókn.

Verðandi foreldrar vinsamlega athugið


 • Að koma ekki með börn yngri en 12 ára í ómskoðunina. Börn eiga erfitt með að tengja ómmyndina við barn og verða því oft hávær og óróleg. Þetta getur haft áhrif á einbeitingu ómskoðarans og foreldranna, sem njóta þá ekki ómskoðunarinnar sem skyldi.
 • Ef eitthvað afbrigðilegt finnst við skoðun á fóstrinu er viðvera barns ekki heppileg.
 • Skoðunin tekur um það bil 20 - 30 mínútur. Myndgæði eru misjöfn og fer það eftir legu fósturs og þyngd/líkamsþykkt móður. Stundum eru konur beðnar um að koma aftur ef lega fósturs hefur verið óheppileg eða skoðunin erfið af öðrum ástæðum.
 • Nauðsynlegt er að hafa vel útfyllta beiðni um ómskoðun meðferðis sem ljósmæður eða læknar í mæðraverndinni afhenda í fyrstu mæðraskoðun.
 • Hægt er að kaupa myndir af fóstrinu en ekki myndbandsupptöku. Vinsamlega látið vita í upphafi skoðunar ef þið óskið eftir myndum.

Þessar upplýsingar eru teknar úr bæklingi Landspítalans "Fósturgreining á meðgöngu".

Fjöldi ómskoðana í mæðravernd HSÍ


[mynd 1 v]

Frekari upplýsingar

Vefumsjˇn