A A A

Upplýsingafundur miđvikudaginn 29. apríl kl. 15

28.04 2020 | Sigríđur Lára Gunnlaugsdóttir

 

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Lögreglan á Vestfjörðum boða til upplýsingafundar um afléttingu samkomutakmarkana á norðanverðum Vestfjörðum. Fundurinn fer fram á Facebook-síðu Heilbrigðisstofnunarinnar miðvikudaginn 29. apríl kl. 15:00. Senda má fyrirspurnir inn á facebooksíðuna bæði fyrir fundinn og meðan á honum stendur.

 

Allir neikvćđir á sunnanverđum Vestfjörđum

28.04 2020 | Sigríđur Lára Gunnlaugsdóttir
1 af 2

 

Enginn er smitaður af Covid-19 á sunnanverðum Vestfjörðum. Þetta er niðurstaða skimunar Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Íslenskrar erfðagreiningar sem fram fór í lok síðustu viku. Af 417 sýnum, reyndust öll neikvæð, en 33% íbúa á svæðinu komu í sýnatöku sem fram fór í félagsheimilinu á Patreksfirði.

 

„Það eru gleðifréttir að engin samfélagssmit hafi greinst. Mikil samstaða er samt sem áður á meðal íbúa um að slá ekki slöku við og fylgja ráðleggingum sóttvarnaryfirvalda áfram,“ segir Svava Magnea Matthíasdóttir hjúkrunarstjóri á Patreksfirði.

 

„Það eru mjög jákvæðar fréttir að öll prófin reyndust neikvæð,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri.

 

Engin smit hafa því greinst á svæðinu. Einn með lögheimili á svæðinu hefur þó smitast, en dvalið utan héraðsins. Ólíkt norðanverðum Vestfjörðum, hafa engar sérstakar takmarkanir verið í gildi á sunnanverðu svæðinu umfram það sem er á landsvísu. Því munu þær tilslakanir sem gerðar verða 4. maí einnig eiga við Vesturbyggð og Tálknafjörð.

Skimun gengiđ vel á Patreksfirđi

24.04 2020 | Sigríđur Lára Gunnlaugsdóttir

 

Skimun Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða fyrir Covid-19 smiti, í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu, hefur farið fram á Patreksfirði fimmtudag og föstudag. Skimunin fór fram í félagsheimilinu og var þátttakendum beint um húsið í samræmi við sóttvarnarreglur. Þátttaka hefur verið mjög góð, rúmlega 400 sýni hafa verið tekin á þessum tveimur dögum og komust færri að en vildu.

 

Sýnatakan er unnin af starfsfólki Hvest á Patreksfirði, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum/sjúkraliðanemum. Tekin eru sýni bæði úr nefkoki og hálskoki.

 

Hringt er í þá sem reynast bera smit ef einhverjir verða. Aðrir geta séð sína niðurstöðu inn á mínar síður á heilsuvera.is

Heildarniðurstöður úr skimuninni eru væntanlegar eftir helgi.

 

Meðfylgjandi eru myndir frá skimuninni.

 

Nokkrar myndir um ţróun Covid-19 á Vestfjörđum

21.04 2020 | Gylfi Ólafsson
 
Í gær var boðuð aflétting á höftum frá og með 27. apríl á Flateyri, Suðureyri, Súðavík og Þingeyri. Áfram verða hömlur á samskiptum fólks, skólahaldi og atvinnurekstri á Ísafirði, Hnífsdal og Bolungarvík um óákveðinn tíma. 
 
Hér á eftir koma fimm myndir sem varpa ljósi á stöðu mála. Sjá nótur um aðferðafræði neðst. 
 
Fyrsta myndin sýnir virk smit, fjölda sjúklinga sem hefur batnað og fjöldi sem hefur látist frá 27. mars til dagsins í gær. Á myndinni sést að virkum smitum fjölgaði hægt fram til 2. apríl þegar hópsmit kom upp og í kjölfarið hækkaði talan hratt. Nú á síðustu dögum hefur fólki sem fyrst smitaðist verið að batna, og er því hægt að vonast til þess að hápunkti sé náð í bili og bláa línan fari niður á við héðan í frá. 

 
Á mynd númer tvö eru virk smit sýnd á mynd með virkum smitum á landsvísu. Þar sést hversu langt faraldurinn var genginn á landsvísu áður en hann náði sér á strik á Vestfjörðum. Um tveggja vikna munur er á toppunum tveimur. 

 
Þriðja myndin sýnir uppsafnaðan fjölda smita eftir bæjarfélögum. Bolungarvík og Ísafjörður (vel að merkja ekki Ísafjarðarbær, heldur Ísafjörður og Hnífsdalur) bera þar höfuð og herðar yfir aðra staði á kjálkanum, bæði þegar allur faraldurinn er tekinn til og síðustu tvær vikur.

 
Fjórða myndin bregður þessum smitum í samhengi við íbúafjölda. Nálega 6% Bolvíkinga hafa sýkst af Covid-19, rúmlega 1% Ísfirðinga en nær engir í öðrum bæjum. Á landsvísu hefur um hálft prósent landsmanna sýkst. 

 
Fimmta myndin sýnir svo hlutfall Vestfirðinga af nýgreindum smitum. Nokkra daga hafa Vestfirðingar haft stóran hluta nýrra smita, sérstaklega 10. apríl og eftir það. Þann 19. apríl greindust bæði smit dagsins á Vestfjörðum. Til samanburðar er hlutfall Vestfirðinga af heildaríbúafjölda landsins sett inn á myndina. 

 
Um aðferðafræði
Ekki er fullkomið samræmi milli mynda hvað tölur varðar. Mismunur milli lögheimilis og dvalarstaðar er algengasta ástæða þess. Þá liggja gögn ekki alltaf fyrir niður á rétta dagsetningu. Einnig eru heilbrigðisumdæmi og lögregluumdæmi ekki þau sömu, sem getur skapað ósamræmi. Reynt hefur verið að minnka þetta. 
 
Þá er hægt að benda á, að atvinnusóknarsvæðið er eitt og hið sama. Mörg smit eiga rót sína á vinnustöðum. Það er því ekki það sama að líta á lögheimili eða dvalarstað eða stað þar sem smitið átti sér stað.

Gjafir til starfsmanna

21.04 2020 | Sigríđur Lára Gunnlaugsdóttir
1 af 3

 

Frá því Covid-19 faraldurinn kom upp hefur verið mikið álag á starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða líkt og á öðrum heilbrigðisstarfsmönnum. Frá byrjun hefur verið unnið eftir nýjum reglum sem miðast að því að minnka samskipti til að varna því að smit breiðist út. Reglurnar breyttust og urðu strangari eftir því sem leið á faraldurinn. Þegar smit bárust svo vestur var það af miklum þunga og álag á starfsfólk jókst gríðarlega. Nokkur fjöldi starfsmanna stofnunarinnar datt úr vinnu vegna smita og sóttkvía og ómetanleg aðstoð bakvarða hefur hjálpað starfsfólki að halda stofnuninni gangandi á þessum erfiðu tímum. 

 

Það er ekki einungis faglært fólk sem kemur með þyrlu að sunnan til að hjálpa.  Bæjarbúar hafa einnig stokkið til og komið til vinnu. Þau eru fjölmörg handtökin sem vinna þarf og störfin margvísleg. Aukinn fjölda þarf í umönnun þar sem vaktakerfi breytast, ræstingar eru stórauknar og þrif með öðrum hætti en áður. Umsýsla ýmiskonar og aðföng eru margfalt meiri en á venjulegum dögum og með færri komum á heilsugæslu aukast til muna samskipti á neti og í síma og þeim þarf að sinna. Starfsfólki hefur því fjölgað og vinnudagur margra er langur sem síðan krefst aukinnar vinnu launadeildar.

 

Heilbrigðisstofnun er eins og maskína þar sem allir hlutar þurfa að vera í lagi til að starfsemin gangi upp. Með góðri skipulagningu stjórnenda og eljusemi allra starfsmanna hefur það tekist hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða síðustu vikur.

Starfsmenn hafa fundið hlýhug og þakklæti víða frá. Bæjarbúar sýna það með ýmsu móti. Kvenfélagið Hvöt, einstaklingar og ýmis fyrirtæki hafa sent gjafir sem sannarlega hafa komið sér vel þegar vinnudagur lengist og kaffi og matartímar eru teknir á hlaupum. 

Þökkum við kærlega fyrir okkur. 

 

Þau fyrirtæki sem stutt hafa starfið eru:

Hamraborg

Jakob Valgeir

Bónus Ísafirði

Góa

Kaffitár

Ölgerðin

Sóley Organics

Nói Siríus

Lava Cheese

Socks2Go

Bioeffect

Fitness Sport

Vefumsjón