A A A

Heilbrigđisstofnun Vestfjarđa stendur vel í "Stofnun ársins"

20.10 2020 | Sigríđur Lára Gunnlaugsdóttir
1 af 3
 
Niðurstöður í könnun stéttarfélagsins Sameykis um stofnun ársins fyrir árið 2020 hafa verið birtar. Könnunin var lögð fyrir í febrúar, áður en verulegra áhrifa fór að gæta af heimsfaraldrinum, en birtingu niðurstaðna hefur verið frestað vegna aðstæðna.
 
Eftir mikla bætingu milli áranna 2018 og 2019 stendur einkunn Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða í stað milli ára. Stofnunin er áfram yfir meðaltali heilbrigðisstofnana, bæði í einkunn og röðun.
 
Séu niðurstöður stofnunarinnar eftir undirliðum bornar saman við aðrar heilbrigðisstofnanir sést að upplifun starfsmanna af launakjörum og vinnuskilyrðum eru einna helst þeir þættir sem eru hærri hjá HVest. Þegar undirliðir könnunarinnar eru skoðaðir sést að ánægja og stoltímynd stofnunar, stjórnun og starfsandi hafa einna helst hækkað frá 2017 til 2020.
 
Sameyki og forverar þess hafa staðið fyrir könnuninni um stofnun ársins um árabil. Könnunin er lögð fyrir alla starfsmenn í opinberum stofnunum og fyrirtækjum og gefur verðmætar upplýsingar til að bera stofnanir saman, styðja við umbótaverkefni, fagna því sem vel er gert og sjá hvar skóinn kreppir.

Tímabundin lokun heilsugćsluselja á Flateyri og Ţingeyri 12. og 14. október

9.10 2020 | Sigríđur Lára Gunnlaugsdóttir

 

Vegna óviðráðanlegra orsaka verður opnunartími heilsugæslu á Flateyri og Þingeyri breyttur í næstu viku. Mánudaginn 12. október verður lokað á Þingeyri og miðvikudaginn 14. október verður lokað á Flateyri. 

Beðist er velvirðingar á þessum tímabundnu breytingum.

Sýnataka vegna Covid

6.10 2020 | Gylfi Ólafsson

Fólk er duglegt við að koma í sýnatöku og við viljum að svo verði áfram. Verklagið okkar tekur alltaf breytingum eftir því sem þetta kemst upp í meiri æfingu og faraldrinum vindur fram.

 

Þessar upplýsingar gilda bæði á Ísafirði og Patreksfirði, en íbúar í nærsveitum þurfa að koma sér á aðra hvora þessara stöðva.

 

Bókun á sýnatöku

Einstaklingar með einkenni eiga að hringja á heilsugæsluna til að skrá sig í sýnatöku. Best er að hringja á dagvinnutíma frá 08:00 til 16:00 í síma 450-4500. Patreksfirðingar geta einnig hringt í 450-2000. Ef einstaklingur fær einkenni eftir klukkan 16:00 virka daga eða yfir helgi er hægt að panta sýnatöku með því að hringja á bráðadeild á Ísafirði í síma 450-4565.

 

Einstaklingar sem þurfa að fara í seinni landamæraskimun eða sýnatöku eftir að hafa verið 7 daga í sóttkví, eru beðnir um að bóka sér tíma á dagvinnutíma á virkum dögum með því að hringja í heilsugæsluna.

 

Þegar þú kemur

Ágætt er að koma á bíl, en það er í lagi að koma einnig á hjóli eða gangandi. Sýnatökur eru alltaf utandyra, allir eiga að bíða utandyra og það er alveg bannað að koma inn á heilsugæslurnar eða sjúkrahúsin á leiðinni í eða úr sýnatöku.

 

Á Patreksfirði er sýnatakan í kjallaranum þar sem aðkoma sjúkrabíla er. Á Ísafirði er búið að setja upp hvítan gám við bílastæðið hjá sjúkrahúsinu.

 

Almennt

Einstaklingar sem bíða eftir sýnatöku eða niðurstöðu greiningar þurfa að sæta einangrun þar til neikvæðar niðurstöður liggja fyrir. Við meðhöndlum alla í sýnatökum eins og þið séuð smituð, og þið eigið að haga ykkur til samræmis.

 

Allir sem panta sýnatöku fá SMS með upplýsingum um hvar og hvenær þeir eiga að mæta. Niðurstöður berast á mínum síðum á Heilsuveru en þeir sem greinast jákvæðir fá upplýsingar um niðurstöðuna símleiðis. Þeir sem ekki eru með Heilsuveru, fá upplýsingar símleiðis hvernig sem niðurstaðan er.

Ný svćfingarvél

2.10 2020 | Sigríđur Lára Gunnlaugsdóttir

 

Á fimmtudag var tekin í notkun á Sjúkrahúsinu á Ísafirði ný svæfingarvél. Vélin er síðasta tækið sem afhent er af þeim tækjum sem safnað var fyrir á vegum  „Stöndum saman Vestfirðir”.

Sú söfnun fór af stað þegar myrkrið var sem svartast í Covid faraldrinum í vetur. Stuðningurinn og hlýhugurinn sem fram kom í söfnuninni, snart starfsmenn alla sem einn og hvatti til dáða.

Árangur af söfnuninni fór fram úr björtustu vonum aðstandenda hennar og voru keypt tæki fyrir um 20 milljónir. 

 

Þau tæki sem keypt voru fyrir söfnunarféð eru eftirfarandi:

  • Fjórar súrefnissíur
  • Tvær BiPap ytri öndunarvélar
  • Ein hágæða svæfingavél
  • Eitt greiningartæki fyrir blóðrannsóknir

 

Hvest þakkar fyrir þessa höfðinglegu gjöf. Það er styrkur stofnunarinnar að finna þennan stuðning úr samfélaginu hér á svæðinu.

 

Meðfylgjandi er mynd af Söru Guðmundsdóttur svæfingarhjúkrunarfræðingi og Magneu Ósk Sigrúnardóttur hjúkrunarfræðingi með nýju vélina.

Geđheilsuteymi Vestfjarđa

18.09 2020 | Sigríđur Lára Gunnlaugsdóttir

 

Geðheilsuteymi Vestfjarða tók aftur til starfa þann 1. apríl 2020 eftir nokkurra mánaða hlé en þann dag tók Thelma Björk Guðmundsdóttir við stöðu verkefnastjóra teymisins. Thelma Björk útskrifaðist með MA til starfsréttinda í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands sumarið 2015. Frá útskrift starfaði Thelma bæði sem málastjóri á Laugarásnum, meðferðar- og endurhæfingargeðdeild innan Landspítala fyrir ungt fólk með byrjandi geðrofssjúkdóma og einnig sem félagsráðgjafi Kvennaathvarfsins.

 

Sem stendur er Thelma Björk eini meðlimur teymisins sem er fastráðinn á Hvest. Helena Jónsdóttir sálfræðingur er í verktöku og hefur tekið að sér skjólstæðinga í gegnum geðheilsuteymið og nú í ágúst bættist sálfræðingurinn Sigrún Þóra Sveinsdóttir við hópinn en hún sinnir fjargeðheilbrigðisþjónustu í verktöku sömuleiðis.

 

Draumastaðan væri að hafa þverfaglegt teymi á stofnunni sem kæmi saman að því að móta og veita skilvirka og góða geðheilbrigðisþjónustu. Áhersla er því lögð á að fastráða fleira fagfólk inn í teymið og fór á dögunum auglýsing í loftið: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/laus-storf-a-starfatorgi/laust-starf/2020/09/15/Malastjori-i-gedheilsuteymi/

 

Óhætt er að segja að á ýmsu hafi gengið frá því teymið tók aftur til starfa en fyrsta tilfelli Covid-19 greindist á Vestfjörðum á sama tíma og eðlilega höfðu þau höft sem Covid fylgdu áhrif á starfsemina. Biðlistinn eftir þjónustu teymisins var langur og margir sem óskuðu eftir að komast í þjónustu eða höfðu verið í þjónustu og óskuðu eftir áframhaldi. Í fyrstu var áhersla lögð á að heyra í öllum eins og hægt var, taka stöðuna og ákveða framhaldið.

Þar sem ekki var í boði að boða fólk í viðtöl á heilsugæslunni fóru fyrstu viðtöl fram í gegnum Kara Connect sem er örugg leið, vottuð af Landlækni til að bjóða upp á fjarviðtöl. Um miðjan maí var svo loks hægt að boða skjólstæðinga í viðtöl á heilsugæslunni. Vel hefur gengið og er þjónusta geðheilsuteymisins vel nýtt.

 

Geðheilsuteyminu er ætlað að sinna öllum landsfjórðungnum og er stefnt á að Thelma Björk fari í vettvangsferð 24. og 25. september næstkomandi til að kynna starfsemina enn frekar og koma á tengslum við bæði heilbrigðisstarfsfólk og skjólstæðinga á sunnanverðum Vestfjörðum. Hægt er að bóka viðtalstíma á heilsugæslunni á Patreksfirði í síma 450-2000, fá nánari upplýsingar um þá þjónustu sem í boði er og koma í kjölfarið í samtalsmeðferð ef þörf er á. Regluleg viðtöl verða í boði í framhaldinu, bæði á staðnum á meðan veður leyfir og þess á milli með fjargeðheilbrigðisþjónustu.

Nánari upplýsingar um geðheilsuteymið má finna hér en vert er að taka fram að þjónusta teymisins er skjólstæðingum að kostnaðarlausu.

 

Ef upp koma spurningar eða ef frekari upplýsinga er óskað má hafa samband við Thelmu Björk á netfangið thelma@hvest.is eða í síma 450-4500.

 

Vefumsjón