A A A

Heimsóknarbann á Heilbrigđisstofnun Vestfjarđa

11.03 2020 | Sigríđur Lára Gunnlaugsdóttir

 

Ákveðið hefur verið að setja á heimsóknarbann á allar deildir stofnunarinnar. Sú ákvörðnun er tekin af stjórn sóttvarna hjá stofnuninni, meðal annars í ljósi þess að komin eru fram 3. stigs smit innanlands. Bannið gildir á sjúkrahúsunum á Ísafirði og Patreksfirði og hjúkrunarheimilunum Bergi, Eyri og Tjörn. Bannið gildir frá og með fimmtudeginum 12. mars.

 

Tekið verður tillit til sérstakra aðstæðna sem geta komið upp, til dæmis vegna fólks í lífslokameðferð og vegna barna sem þurfa foreldra með sér. Slíkar aðstæður eru metnar af deildarstjóra á hverjum stað í samráði við umdæmislækni sóttvarna.

Settar hafa verið upp facebooksíður fyrir hjúkrunarheimilin og í gegnum þær síður geta aðstandendur hringt myndsímtal til ástvina sinna. Nánari upplýsingar berast beint til aðstandenda.

 

Einnig er hægt að heimsækja aðstandendur á Ísafirði og Patreksfirði í gegnum svokallaða fjarverur (sjá t.d. hér https://suitabletech.com/products/beam og hér https://www.ruv.is/frett/hvada-verur-eru-i-haskolanum-a-akureyri). Áhugasamir hafi samband við Guðrúnu Ósk (gudruno@hvest.is).  

 

Óski aðstandendur eftir frekari upplýsingum eru þeir beðnir um að snúa sér til viðkomandi deildarstjóra.

 

Heilsugæslan er opin eins og verið hefur. Ef einstaklingar finna fyrir veikindum er þeim bent á að hringja í síma 1700 og fá þar nánari upplýsingar um hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið. Veikir einstaklingar eru sérstaklega beðnir um að koma ekki á bráðamóttöku sjúkrahúsa eða á heilsugæslustöðvar nema að fengnum ráðleggingum í síma. Einkenni sýkingarinnar líkjast helst flensu; hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir og þreyta. 

 

Aðgengi á endurhæfingardeild á Ísafirði breytist í kjölfar þessara ráðstafana. Deildin verður lokuð fyrir fólk utan úr bæ frá kl. 9.30-14.00.

Viđbrögđ Hvest viđ kórónaveiru 11.03 2020

11.03 2020 | Sigríđur Lára Gunnlaugsdóttir

Í umdæmi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hefur enn ekki greinst smit COVID19 veirunnar. Á norðursvæði er einn í einangrun og einn í sóttkví sem stendur. Ýmsar ráðstafanir hafa verið gerðar til að minnka líkur á smiti og viðbragsáætlanir settar í gang.

 

Helstu úrræði sem gripið hefur verið til eru:

  • Sett hefur verið á fót stjórn sóttvarna vegna veirunnar sem hittist í það minnsta annan hvern dag. Í þeirri stjórn eru forstjóri stofnunarinnar, umdæmislæknir sóttvarna, framkvæmdastjóri hjúkrunar og lækninga, formaður sýkingavarnarnefndar norðursvæðis og hjúkrunarstjóri á Patreksfirði.
  • Á Patreksfirði og Ísafirði hafa verið sett upp móttökuherbergi fyrir fólk með grun um smit sem ekki er hægt að fara í heimavitjun til (ferðamenn).
  • Starfsfólk er upplýst reglulega um gang mála og ábyrgð þeirra í að viðhalda hreinlæti á sinni deild og hjá skjólstæðingum og aðstandendum sem þau eru í samskiptum við.
  • Afmælisveislur og mannfagnaðir á hjúkrunarheimilum eru takmarkaðir.
  • Þeir sem hafa minnsta grun um smit eru beðnir um að koma ekki á stofnunina.
  • Starfsmenn og þeir sem á stofnunina koma eru minntir á að handþvottur og spritt er mikilvægasta vörnin gegn smiti.

Heimsóknir enn leyfđar á hjúkrunarheimilum og bráđadeild stofnunarinnar

10.03 2020 | Sigríđur Lára Gunnlaugsdóttir

 

Á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur ekki verið sett upp heimsóknarbann enn sem komið er. Sú ákvörðun er þó endurskoðuð daglega út frá stöðu smita í umdæmi stofnunarinnar. 

 

Þeir sem koma í heimsókn til ættmenna á hjúkrunarheimilum og legudeild eru beðnir um að hafa eftirfarandi í huga:

  • Handþvottur er mikilvægasta ráðið til að forðast smit og einnig er mikilvægt að nota handspritt. Hafið þetta alltaf í huga þegar komið er í heimsókn.
  • Forðist alla líkamlega snertingu eins og hægt er svo sem handabönd, faðmlög og kossa við íbúa.
  • Forðist að koma við snertifleti í almennum rýmum svo sem handriði og hurðarhúna.

 

Íbúar hjúkrunarheimila eru flestir aldraðir og/eða með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma. Þeir eru því í sérstökum áhættuhópi tengt því að veikjast alvarlega af Kórónaveirunni. 

 

Þeir sem eru með kvefeinkenni, flensulík einkenni eða hafa ferðast nýlega til skilgreindra áhættusvæða samkvæmt upplýsingum á vef landlæknis eru beðnir um að gæta varúðar og koma ekki í heimsókn á stofnunina.

 

Við bendum ykkur á að kynna ykkur leiðbeiningar á vef Landlæknisembættisins því staða mála og leiðbeiningar þeim tengdar geta breyst dag frá degi.

 

 

 

Árshátíđ á norđursvćđi frestađ

4.03 2020 | Gylfi Ólafsson

Vegna þróunar undanfarna daga á COVID-19 sjúkdómnum er það sameiginlegt mat umdæmislæknis sóttvarna og framkvæmdastjórnar Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða að fresta verði árshátíð, sem halda átti 14. mars í Bolungarvík. Hádegisverðurinn sem halda átti daginn fyrir árshátíð, og í ár átti að vera með Laddaþema, frestast einnig. Staðan verður endurmetin reglulega en líklegast er að árshátíðin fari fram í haust. Öðru félagsstarfi á vegum starfamannafélagsins verða einnig settar skorður.

 

Fyrir stóra stofnun sem er hluti af grunnþjónustu samfélagsins er það óábyrgt að halda viðburð þar sem allir heilbrigðisstarfsmenn af stóru svæði safnast saman í návígi. Ef setja þyrfti alla gesti slíkrar samkomu í sóttkví væru afleiðingarnar alvarlegar fyrir stofnunina, skjólstæðinga og samfélagið.

 

Stjórn starfsmannafélags og skemmtinefnd voru með í ráðum við ákvörðunina sem tekin var fyrr í dag. Enginn tekur svona ákvörðun að gamni sínu; undirbúningur árshátíðarinnar var langt kominn, búið að ráða fínan veislustjóra að sunnan, skrifa óborganleg skemmtiatriði og margir búnir að bóka bæði pössun og tíma í hárgreiðslu. Árshátíðin í haust verður ennþá skemmtilegri fyrir vikið.

 

Einn í einangrun og ţrír í sóttkví á Patreksfirđi

4.03 2020 | Gylfi Ólafsson

Umdæmislæknir sóttvarna í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða hefur sett einn einstakling í heimaeinangrun og þrjá í heimasóttkví á Patreksfirði vegna gruns um COVID-19. Öll voru þau að ferðast erlendis saman í hóp. Sýni hafa verið send á Landspítalann til greiningar. Þetta eru fyrstu sýnin sem tekin hafa verið á Patreksfirði og nágrenni. Áfram er einn í sóttkví á Ísafirði. 

 

Áfram brýnum við fyrir fólki að hringja í 1700 ef grunur um COVID-19 smit vaknar í stað þess að koma á heilsugæslustöð. Sóttvarnarlæknir hefur gefið út mikið af góðu lesefni um veiruna, skynsamleg viðbrögð og fleira. Þar er munurinn á sóttkví og einangrun einnig útskýrður

Vefumsjón