A A A

Nýr tannlćknir á Ísafirđi

2.02 2021 | Gylfi Ólafsson
Frá vinstri Christian Lee nýr tannlćknir, Viđar Konráđsson tannlćknir og Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigđisstofnunar Vestfjarđa
Frá vinstri Christian Lee nýr tannlćknir, Viđar Konráđsson tannlćknir og Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigđisstofnunar Vestfjarđa

Nýr tannlæknir hefur tekið til starfa á Ísafirði. Christian Lee er 27 ára Englendingur sem útskrifaðist árið 2016 frá Háskólanum í Manchester. Hann hefur síðan starfað í Manchester og Liverpool við almennar tannlækningar.

 

Christian tekur við af Sigurjóni Guðmundssyni sem hætti fyrir nokkru sökum aldurs. Auglýst var síðasta sumar meðal tannlækna í Evrópu og var Christian einn fjölmargra sem sóttu um stöðuna.

 

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu tækifæri,“ segir Christian. „Ég vildi breyta til, færa mig úr borg í dreifbýli og komast þannig í bæði annað samfélag en einnig annarskonar tannlækningar. Þegar ég sá myndbandið var ég snöggur að senda ferilskrána mína inn. Útivist og veiðar ýmiss konar eru meðal áhugamála minna og ég er heillaður af landi og þjóð.“

 

„Það er frábært að fá Christian til að taka við stólnum og sjúklingunum mínum,“ segir Sigurjón fráfarandi tannlæknir. „Við erum um margt líkir, ég var líka 27 ára og einhleypur þegar ég kom, með eigur mínar í einni tösku, bókakassa og sæng í poka. Vonandi á honum eftir að vegna jafn vel hér og mér.“

 

Aðkoma Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða

Tannlæknaþjónusta er á einkamarkaði á Íslandi. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur því ekkert formlegt hlutverk í veitingu á tannlæknaþjónustu. Eina formlega aðkoman er að tannlæknastofur á heilsugæslunum á Ísafirði og Patreksfirði eru leigðar til sjálfstæðra tannlækna. Þó er það svo að forstjóri er í heilbrigðisstefnu til 2030 gerður umdæmisstjóri heilbrigðismála innan síns svæðis. „Við viljum leggja okkar lóð á vogarskálirnar við að viðhalda góðri tannheilsu íbúa. Í þessu samhengi vil ég einnig koma á framfæri að tannlæknastofan á Patreksfirði er laus til útleigu, áhugasamir ættu endilega að setja sig í samband við mig,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri.  

 

Tveir tannlæknar

Viðar Konráðsson starfar enn í næsta herbergi við hlið Christians sem hefur þegar hafið störf. Sigurjón hefur verið til aðstoðar fyrstu dagana svo að allt gangi vel fyrir sig.

 

Hægt er að panta tíma í 456 3737.

Hćttustigi aflýst

14.01 2021 | Gylfi Ólafsson
Allir sem fóru í sýnatöku í morgun reyndust neikvæðir fyrir covid. Viðbragðsstjórn Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hefur því tekið sjúkrahúsið af hættustigi.
 
Starfsfólk rannsóknadeildar á Ísafirði er þrátt fyrir það í sóttkví fram í næstu viku og deildin eingöngu opnuð í neyð og með talsverðum viðbúnaði. Rekstur annarra deilda er kominn í eðlilegt horf.

Sjúkrahúsiđ á Ísafirđi á hćttustig vegna Covid-smits

14.01 2021 | Gylfi Ólafsson
Viðbragðsstjórn Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða kom saman í morgun og er sjúkrahúsið á Ísafirði nú komið á hættustig.
Ástæðan er sú að sjúklingurinn sem nú liggur á Landspítala og greint hefur verið frá í fréttum hefur á síðustu dögum notið þjónustu á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
 
Þrír starfsmenn á sjúkrahúsinu á Ísafirði eru í sóttkví og þrír til viðbótar í úrvinnslusóttkví. Þetta hefur talsverð áhrif á þjónustu rannsóknadeildar, röntgendeildar og skurð- og slysadeildar.
 
Sýni hafa verið tekin og eru á leið suður til greiningar. Reynist sýnin neikvæð ætti að vera hægt að aflétta hættustiginu strax í kvöld.
 
Greint hefur verið frá því í fréttum að sjúklingurinn greindist með Covid við innlögn á Landspítala. Nýlega höfðu verið tekin sýni úr sjúklingnum á Ísafirði sem reyndust neikvæð.
 
Þessi ákvörðun viðbragðsstjórnar stofnunarinnar var tekin til að gæta fyllsta öryggis. Sjúklingum er ekki hætta búin og öllum alvarlegum tilvikum verður hægt að sinna. Sumir starfsmannanna hafa þegar fengið fyrri bólusetningu og eru þar með komnir með vörn að hluta fyrir veirunni.
 
„Þetta minnir okkur á að við erum ekki komin fyrir vind. Agaðar sóttvarnir eru enn mikilvægar til að tryggja heilsu og öryggi íbúa og starfsmanna,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Nýtt fćđingarrúm gefiđ á HVest

5.01 2021 | Sigríđur Lára Gunnlaugsdóttir
Erla Sigurjónsdóttir ljósmóđir viđ nýja fćđingarrúmiđ.
Erla Sigurjónsdóttir ljósmóđir viđ nýja fćđingarrúmiđ.

 

Fæðingadeild Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða barst góð gjöf fyrir jólin þegar nýtt og fullkomið fæðingarrúm barst til Ísafjarðar. Nýja rúmið er mikil bót bæði fyrir fæðandi konur og starfsfólk. Það auðveldar ljósmæðrum aðgengi að konunum, bætir vinnuaðstöðu og leiðir til betri líkamsbeitingu starfsfólks. Rúmið veitir síðan konum meiri hreyfanleika og sveigjanleika í fæðingu með fjölmörgum stillingarmöguleikum. Gamla rúmið var frá síðustu öld og bæði rúm og dýna orðið slitið og úr sér gengið.

 

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða þakkar öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn, en fjölmörg félagasamtök hér á norðanverðum Vestfjörðum tóku þátt í fjármagna kaupin, mörg með mjög rausnarlegum framlögum. Það er starfsfólki og stjórnendum HVest mikill styrkur að finna þann samhug og velvilja sem nærsamfélagið sýnir stofnuninni.

 

 

 

Bólusetning á Vestfjörđum hófst á Bergi

30.12 2020 | Gylfi Ólafsson
1 af 4
Íbúar á hjúkrunarheimilum og framlínustarfsmenn á Vestfjörðum verða bólusettir í dag, um 70 manns.
 
Fyrsta bólusetningin fór fram á Bergi í Bolungarvík kl. 10 í morgun, 30. desember. Ester Hallgrímsdóttir íbúi á Bergi fékk fyrsta skammtinn. Í apríl slapp hún við smit þrátt fyrir að hafa verið umkringd smituðum íbúum þegar hópsýkingin kom þar upp.
 
Fjóla Sigríður Bjarnadóttir, deildarstjóri hjúkrunarheimilanna Eyrar, Bergs og Tjarnar gaf henni sprautuna. Fjóla hefur verið hjúkrunarfræðingur á Bergi um árabil og stýrði aðgerðum þar í apríl. Nú um áramótin lætur Fjóla af störfum hjá stofnuninni og flytur til Garðabæjar.
 
„Þetta er táknrænn og tilfinningaþrunginn dagur fyrir okkur öll,“ segir Hildur Elísabet Pétursdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar.
 
Aðrir íbúar á hjúkrunarheimilum stofnunarinnar á Tjörn á Þingeyri, Eyri á Ísafirði verða bólusettir í dag, sem og læknar og hjúkrunarfræðingar í framlínu heilbrigðisþjónustunnar. Bóluefni er einnig lent á flugvellinum á Bíldudal og verða íbúar í hjúkrunarrýmum á Patreksfirði og framlínustarfsmenn bólusettir í dag. Alls verða því 70 skammtar gefnir.
 
Á myndunum eru:
Ester Hallgrímsdóttir og Fjóla Sigríður Bjarnadóttir við bólusetningu á Bergi.
Þórunn Berg og Telma Björk Sörensen hjúkrunarfræðingar blanda bóluefnið.
Jóhanna Hafsteinsdóttir lyfjatæknir tekur á móti bóluefninu á Ísafirði.

Gerður Rán Freysdóttir hjúkrunarstjóri á Patreksfirði tekur á móti bóluefni á Bíldudalsflugvelli. 

 
Vefumsjón