A A A

Fréttatilkynning frá HVest

16.06 2017 | Svavar Ţór Guđmundsson

 

Samkvæmt samkomulagi milli forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Þorsteins Jóhannessonar skurðlæknis og yfirlæknis sjúkrasviðs HVEST, mun Þorsteinn láta af störfum við heilbrigðisstofnunina 15. júlí nk. eftir tæplega 30 ára starf.
Þorsteinn er fæddur á Ísafirði 11. maí 1951 og lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1977 og hlaut sérfræðiréttindi í almennum skurðlækningum á Íslandi 1985 og í Þýskalandi 1986. Hann lauk Doktorsprófi frá Alberts Ludwigs Universität í Freiburg 1988. Þorsteinn á að baki langan og farsælan starfsferil við sjúkrahúsið á Ísafirði, sem spannar heil 27 ár, auk þess sem hann starfaði þar sem aðstoðarmaður á rannsóknarstofu og á röntgendeild á námsárum 1973-1975 og sem læknastúdent á sjúkradeild.


Árið 1990 kom Þorsteinn til starfa við Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði, sem yfirlæknir/forstöðulæknir og gegndi þeirri stöðu fram að sameiningu heilbrigðisstofnana á Vestfjörðum í upphafi árs 2015 og hefur starfað sem yfirlæknir sjúkrasviðs HVEST frá sama tíma. Þorsteinn hefur staðið vaktina sem skurðlæknir á sjúkrahúsinu á Ísafirði nánast sleitulaust í gegnum árin, en tók ársleyfi 2012-2013 er hann fór til starfa sem deildarlæknir fæðingar- og kvensjúkdómadeildar Staufer klinik í Þýskalandi. Þorsteinn hefur auk læknisstarfa komið nokkuð að kennslu í gegnum árin, m.a. kennslu hjúkrunarnema bæði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Þá hefur hann haldið fjölda námskeiða fyrir heilbrigðisstarfsfólk um meðferð slasaðra og bráðveikra og haldið fjölda erinda um læknisfræði og skyld efni fyrir félög og félagasamtök.

 

Þorsteinn hefur gegnt ýmsum stjórnunar- og trúnaðarstörfum í samfélaginu samhliða læknis- og stjórnunarstörfum innan heilbrigðisstofnunarinnar. Hann sinni m.a. sveitarstjórnarmálum á árunum 1994 – 2002 og gegndi þá um tíma stöðu forseta bæjarstjórnar Ísafjarðar og Ísafjarðarbæjar og var formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar. Þorsteinn hefur setið í ýmsum stjórnum og nefndum og verið virkur í félagsmálum. Þorsteinn á þrjú börn og eiginkona hans er Margrét Kristín Hreinsdóttir hjúkrunarfræðingur.


F.h. Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða vil ég færa Þorsteini bestu þakkir fyrir hans mikla og góða framlag til heilbrigðisþjónustu á Vestfjörðum síðustu þrjá áratugina og fyrir tryggð hans og hollustu við stofnunina sem og skjólstæðinga hennar. Óskum við honum alls hins besta um ókomna tíð.


16. júní 2017/Kristín B. Albertsdóttir, forstjóri HVEST

Heilsuvera í notkun

16.06 2017 | Svavar Ţór Guđmundsson
Svona lítur innskráningagluggi Veru út.
Svona lítur innskráningagluggi Veru út.

Nú hafa heilbrigðisyfirvöld tekið nýja tækni í notkun sem auðveldar einstaklingum að nálgast helstu upplýsingar í heilbrigðiskerfinu. Heitir þetta kerfi Heilsuvera og er hægt að skrá sig inn á það á vefnum www.heilsuvera.is. Athugið að til þess að geta skráð sig inn í Heilsuveru þarf rafræn skilríki sem hægt er að nálgast t.d. í viðskiptabanka hvers og eins.

 

Í Heilsuveru sér fólk helstu upplýsingar um það í sjúkrakerfum landsins. Einnig getur það sett inn beiðni um endurnýjanir lyfja og þarf þá ekki að hringja í viðkomandi stofnun til þess. Fær læknir þá erindi þess efnis að lyf þarfnist endurnýjunar og klárar hann þá beiðni að því gefnu að ekkert sé athugavert við slíka beiðni.

 

Í kerfinu er sumsstaðar hægt að panta tíma rafrænt hjá lækni, en því miður getum við ekki boðið upp á það hér fyrir vestan vegna þess hve vinnutími lækna er óreglulegur. Þeir þurfa stundum að vera á stofu, stundum á vakt og stundum á deild. Á þessu er engin regla vegna manneklu og því ekki hægt að skipuleggja sérstaka tíma í rafræna bókun. Vonandi getum við tekið þessa þjónustu upp sem fyrst en þangað til verður lyfjaendurnýjun að duga.

 

Hægt er að tengjast Heilsuveru á forsíðu stofnunarinnar, neðst til vinstri.

 

Við hvetjum alla til að skrá sig inn á Veru og skoða þá möguleika sem þar eru í boði, sjón er sögu ríkari.

Heilsufarsmćlingar á Vestfjörđum

18.05 2017 | Svavar Ţór Guđmundsson

Hjartaheill og SÍBS í samstarfi við sveitarfélög og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða munu bjóða Vestfirðingum ókeypis heilsufarsmælingu 24.- 26. maí í stað þeirra sem frestað var 10.-11. maí vegna veðurs. Mælingarnar ná til helstu áhættuþáttta lífsstílssjúkdóma þar sem mældur er blóðþrýstingur, blóðsykur, blóðfita, súrefnismettun og styrkur auk þess sem boðið verður upp á öndunarmælingu fyrir þá sem mælast lágir í súrefnismettun. Jafnframt gefst þátttakendum kostur á að svara lýðheilsukönnun. Fræðsla um lífsstílstengda sjúkdóma verður í boði, hjúkrunarfræðingar frá heilsugæslunni verða á staðnum og veita ráðgjöf og eftirfylgd.

 

Heilsufarsmælingarnar verða á eftirtöldum stöðum:

 

Bolungarvík, Höfðastíg 15, miðvikudaginn 24. maí, kl. 14 – 17

Suðureyri, Aðalgötu 2, miðvikudaginn 24. maí, kl. 19 – 21

Ísafirði, Torfnesi, fimmtudaginn 25. maí, kl. 11 – 15

Súðavík, Grundarstræti 1, fimmtudaginn 25. maí, kl. 17 – 19

Þingeyri, Vallargötu 7, föstudaginn 26. maí, kl. 10 – 12

Flateyri, Eyrarvegi 8, föstudaginn 26. maí, kl. 14 – 16

 

Þátttakendum gefst kostur á að fá sínar niðurstöður sendar í tölvupósti ásamt heildarniðurstöðum. Oddvitar, bæjar- og sveitarstjórar munu opna mælingarnar í sinni heimabyggð.

Frekari frestun á heilsufarsmćlingum

11.05 2017 | Svavar Ţór Guđmundsson

Eitthvað er vorblíðan að stríða okkur því nú hefur verið ákveðið að fresta heilsufarsmælingum enn frekar og verður ekki reynt í dag eða á morgun. Ný dagsetning verður auglýst síðar, bæði hér sem annars staðar. Beðist er velvirðingar á þessu.

Frestun á heilsufarsmćlingum

11.05 2017 | Svavar Ţór Guđmundsson

Vinsamlegast athugið! Heilusfarsmælingar á Ísafirði falla niður vegna veðurs, reynt verður að hafa mælingar á sama tíma á morgun. Takist það ekki heldur verður látið vita hér. Reynt verður að fara á Suðureyri, Súðavík og Bolungarvík á auglýstum tíma.  

Vefumsjón